12.03.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

6. mál, aðflutningsgjald

Kristinn Daníelsson:

Eg vil leyfa mér að mæla mjög fast gegn því, að breyt.till. þessi fái samþykki; eg vonast eftir að hið háa alþingi samþykki frumv. eins og það kom frá Ed.

Eg get ekki betur séð, en að óhætt sé að telja súrsaft undir áfenga drykki, því að hún er mestmegnis notuð þannig. Súrsaftin er herfilega misbrúkuð, og hún á það sannarlega skilið, að þröskuldur sé settur á veg hennar.

Hinn háttv. 3. kgk. þm. sagði, að hún væri nauðsynjavara, sem bera mætti saman við kaffi og sykur, og mest notuð til matar. Þetta er algjörlega rangt. Að vísu kannast eg við, að hún er notuð á nokkrum stöðum til matar, en óhætt er að fullyrða, að aðallega er hún notuð sem áfengi til drykkjar, og því alveg rétt að leggja á hana háan toll.

Hinn háttv. 3. kgk. þm. bar einnig kvíðboga fyrir því, að lögin yrðu misbrúkuð, af því að svo erfitt væri fyrir lögreglustjóra að mæla áfengismagn hennar. Eg geng nú út frá því, að lögum þessum verði alveg eins hlýtt og fyrirmælum annara laga, og að ráð muni finnast til þess að hafa eftirlit með þeim. Mjög undarlegt þótti mér þegar háttv. þm. var að tala um að siðspillingu muni leiða af því að útrýma hlut, sem er siðspillandi, — get ekki skilið það.

Annars skal eg ekki fjölyrða um málið.