15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

21. mál, vígslubiskupar

Jón Sigurðsson:

Það er gamall og góður siður að fylgja gestum til dyra. Og af því að þessir vígslubiskupar eru nú á förum úr deildinni, þá vil eg einnig fylgja þeim til dyra með nokkrum orðum.

Þetta mál er í rauninni hégómi. Eins og háttv. þingdeildarmenn muna, þá kom frumv. þetta upphaflega frá stjórninni og átti að tryggja það, að biskupsvígsla gæti jafnan farið fram hér á landi.

En eg fæ ekki séð, að nein vandkvæði þyrftu að vera á því, að verk þetta gæti orðið framkvæmt, án þess að sérstakur maður sé til þess ætlaður. — Forstöðumaður prestaskólans gæti gert það, eða þá einhver velæruverður prófastur. En ef einhver fastur maður með sérstakri vígslu er til þessa ætlaður, þá er alveg nóg, að hann sé ; einn.

Þetta frumv. er nú í því horfi, sem það er, af því, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) af þjóðræknishvötum bar fram frumv. um endurreisn Hóla-biskupsdæmis hins forna; það frumv. fékk ekki byr hér í deildinni, sem kunnugt er, en af því fæddist svo þessi óskapnaður, sem nú liggur fyrir í frumvarpsformi, þ. e. frv. um 2 vígslu-biskupa. En þetta er, eins og eg hefi áður tekið fram, mesti hégómi, og eg vænti þess, að háttv. þingdeild geri sig ekki að athlægi með þjóðinni með því að senda slíkt frumv. frá sér.

Það stendur einhversstaðar í fornum skrifum, er eg geri ráð fyrir, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) beri kensl á, eg meina Krukkspá, að tveir muni verða poka-biskupar á Íslandi að síðustu. Skyldi nú Krukk gamla ætla að fara að ratast satt á munn? Það er ekki gott að segja!

Eg fæ ekki séð, að 2 vígslubiskupar gætu á nokkurn hátt verið til gagns eða eflingar guðs kristni hér á landi — eins og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) kemst að orði. Það væri auðvelt, að framkvæma vígsluna hér á landi án þeirra.

Eg. ætla nú til vara, að styðja þá breyt.till., sem líklegust er til þess, að fá þessu breytt, en tel réttast, að fella frumv., eins og það nú liggur fyrir.

Háttv. 1. þingm. Rangv. (E. P.) gat þess, að frv. mundi óhætt, það hefði fengið góðan byr áður. En eg verð þó að benda á það, að atkv.greiðslan var í meira lagi tvíræð, sem sjá má af því, að menn töldu hitt frv. ekki fallið; mönnum var þetta nokkuð óljóst.

Eg vil ráða háttv. deild til þess, að fella þetta frumv.; eg sé ekki, að það sé svo mikil ástæða til þess fyrir þingið, að fara að stuðla að því, að Krukkspá rætist í þessu atriði; þetta er eins og eg áður hef tekið fram hégómamál og tildur; að fara að afgreiða það, sem lög, það er þinginu til háðungar.