12.03.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

6. mál, aðflutningsgjald

Steingrímur Jónsson:

Eg vildi leyfa mér að gera grein fyrir atkv. mínu við breyt.till. á þingskj. 196.

Mér finst það hlægilegt, að setja súrsaft undir 4. lið, og telja hana þannig með ýmsum víntegundum, portvíni o. fl. Mér finst það næstum vera að leiða hana í kór, og álít eg það óheppilegt, vegna þess að eg hygg að það gefi bendingu til þess, að nota hana frekar en áður hefir viðgengist í ólöglegum tilgangi til áfengis.

Lögin banna mönnum ekki að verzla með þessa vöru, nema hægt sé að rannsaka hana og sýna og sanna að hún sé áfeng. En það getur verið miklum erfiðleikum bundið, að hafa eftirlit með þessu, því að eftir því sem sagt hefir verið hér, er ekki hægt að mæla hana með venjulegum vínandamæli, vegna þess að lögurinn er svo þykkur. Ef að lögreglustjóri á því að geta haft eftirlit með því, að fyrirskipununum sé hlýtt, þá þarf að benda á hagkvæma leið til þess að rannsaka það, hvort hún inniheldur áfengi eða ekki.

Eg álít langréttast, að súrsaftin hefði staðið sem sérstakur liðum í frumv., og rangt sé að telja hana þar með áfengum drykkjum.

í öðru lagi verð eg að segja það, að tollhækkunin er óeðlilega há, og eg get ekki skoðað hana öðru vísi en óbeinlínis bann, og þá álít eg betra að banna innflutning hennar beinlínis, og eg get ekki séð, að það sé svo þýðingarmikið hvort það er gert eða ekki.

Eg held ekki að það sé rétt, að súrsaft sé neyzluvara víða um land, en hitt er engu síður rangt að segja, að hún sé ekki notuð til matar. Eftir því sem mig minnir, er hún lögboðin í matlista þilskipa, og þyrfti þá að breyta því ákvæði. Yfirleitt er hún töluvert þýðingarmikil nauðsynjavara fyrir útgerðarmenn.

Af þessum ástæðum vil eg greiða atkvæði með breyt.till.