29.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

24. mál, kornforðabúr

Framsögumaður (Hálfdan Guðjónsson):

Það liggja ekki fyrir aðrar breyt.till., en þær sem nefndin hefir gert, og fram koma í nefndarálitinu. Nefndarálitið gerir annars grein fyrir tilgangi frv., og rekur einnig að nokkru sögu þeirra hlunninda, er í frumv. felast. Skal eg því ekki fjölyrða um það nú. Þó vil eg minnast á lánsheimildina, sem getið er um í síðustu málsgrein 21. gr. frumv. Þar segir svo, að alt að 10 þús. kr. lán megi veita úr viðlagasjóði til forðabúranna.

Eg þykist nú vita, að fleiri en eg muni viðkvæmir fyrir fjárframlögum, en það munar miklu, hvort farið er fram á lánsheimild, eða beint fjárframlag. Hér er að eins talað um lán — með vöxtum — til góðs og þarflegs fyrirtækis. Nefndin er því hlynt þessu. Sumir hafa þó verið þessu mótfallnir fyrir þá sök, að lögin muni gripa of mjög inn í framkvæmdir einstaklingsins, og sé þetta ófrjálslegt (að tryggja það með lögum). En eg tek það fram, að þessu er ekki þannig varið, hér er að eins að ræða um heimild í aðaldráttum, umgerð, sem samþyktirnar eiga að fylla út i. Hlutaðeigendur eru því alveg sjálfráðir, hvort þeir vilja koma þessu í framkvæmd eða ekki.

Lögin eru engan veginn tæmandi og er samþyktunum ætlað að gera nánari ákvæði.

Engin af breyt.till. nefndarinnar er veruleg efnisbreyting, flestar að eins orðabreytingar. Það er helzt 2., 3. og 6. br.till., er ástæða væri að tala um.

Í 2. breyt.till. er vikið að því, að betur þyki fara, að sýslunefndir skuli ekki einráðar um það, hvenær stofna skuli forðabúrið, heldur eigi hlutaðeigandi héruð þar frumkvæðið að, og feli svo sýslunefndinni málið til meðferðar.

Um 3. breyt.till. er lítið að segja, en greinilegra þótti að hafa fundarmanna í staðinn fyrir fundarins.

Í 6. breyt.till. er ráðið til að bætt sé inn í lögin nýrri grein um það, að í þeim sé trygging fyrir því, að samþyktirnar annist árlegt reikningshald forðabúrsins. Undir því er starfsemi og velferð forðabúranna komin, að góð skil séu gerð af framkvæmdum þeirra.

Ef ofmikið yrði til slakað, myndi alt verða í ólagi. Vér höfum því ekki þorað annað, en að hafa þetta ákvæði í lögunum.

Eg gleymdi að geta þess, er eg mintist á 3. gr., að nefndin hefir, auk þeirra breytinga, er eg gat um, lagt til, að í stað: »að ári liðnu«, komi: »á næsta aðalfundi sýslunefndar«. Aðalfundir sýslunefnda eru ekki ætíð á árs fresti; þar getur munað nokkuru, eftir því sem á stendur.

Eg þarf ekki að tala frekara um þetta; vona eg að háttv. þingd. fallist á breyt.till. nefndarinnar og frv. í heild sinni.