16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

25. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Jón Magnússon:

Eg var með öðrum manni í minni hluta nefndarinnar og gátum við eigi orðið meiri hlutanum samferða. Skal eg geta þess, að okkur virtist ekki ástæða til að fjölga læknishéruðum, meðan ekki væri til læknar í þau, sem þegar eru stofnuð. Hins vegar viðurkenni eg, að þörf sé á lækni t. d. í Nauteyrarhéraði, en svo er víðar en þar, vil eg tilnefna í Borgarfirði austur. Einhver takmörk verða þó að vera fyrir því, hvaða byrðar má leggja á landssjóðinn, og fjölgun héraðanna hefir líka óumflýjanlega í för með sér rýrnun á »praxis« hinna einstöku lækna.

Eg sé, að háttv. Ed. ætlast til að stofnað verði nýtt hérað í Strandasýslu. Veit eg eigi, hvar á að taka læknana, því að erfitt mun að fá lækni í Nauteyrarhérað. Þar sem sett er í ákvæði þessa frumv., að lögin eigi komi í framkvæmd fyr en læknir er skipaður í þetta hérað, þá getur það verið gott og blessað, en það er hætt við að fleiri rísi upp og þyki sér þörf á lækni, gangi á sama lagið og svo þarf landssjóður að bera byrðina.

Eg er eigi að mótmæla því, að þörfin sé eins mikil í Nauteyrarhéraði, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) segir, en vér verðum að fara eftir getum okkar hér á þessu fámenna og fátæka landi. Talað hefir verið um að forðast að stofna ný embætti, og á það sömuleiðis við hér. Erlendis er eigi kostað svo afarmiklu til læknahalds af opinberu fé, enda er svo um búið, að þeir fá góð laun af þeim, sem nota þá, og svo er líka hérlendis.

Réttast virðist mér að leitað sé til stjórnarinnar um skifting læknishéraða. Heyrir slíkt tæpast undir starfsvið alþingis.