19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

25. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Eggert Pálsson:

Eg býst ekki við, að það hafi mikið að þýða, að fara mörgum orðum um þá till. mína, sem fer fram á að stofna læknishérað á milli Þverár og Jökulsár á Sólheimasandi. Eg veit að þessi till. er þegar fyrirfram dauðadæmd, enda hefir nefndin lagt það til að hún verði feld, enda þótt hún telji óskina réttmæta og á rökum bygða, sem liggur til grundvallar fyrir tillögunni. Hún gefur í áliti sínu von um, að þessari mjög svo sanngjörnu málaleitun verði síðar fullnægt, og þótt mikið sé máske ekki á því að byggja, þá getur þó verið að það sé betra en ekki neitt.

Flestir, sem til þekkja á þessu svæði játa, að það sé engin vanþörf á að fá lækni í þessi héruð. Bæði þessi vötn, Jökulsá og Þverá, eru vond yfirferðar, og geta oft og tíðum verið ófær með öllu þegar sækja þarf lækni, svo að mönnum á þessu svæði eru í þessum efnum allar bjargir bannaðar.

Hvað það atriði snertir, að enga þýðingu hafi að stofna þetta hérað að svo stöddu, með því að enginn læknir fáist í það, þá hygg eg að það sé ekki mikil ástæða. Héraðið yrði jafn mannmargt og mörg önnur læknishéruð — íbúatalan 18—19 hundruð manns — og auk þess um fagrar og frjósamar sveitir að ræða. Og þetta hvorutveggja mundi hvetja lækna til þess að sækja um það. Annars býst eg ekki við því að það þýði að tala um þetta frekar, því háttv. þingd. mun þegar hafa ákveðið forlög till.

En eg vil leyfa mér að nota tækifærið til að taka það fram, að eg hygg, að bæta mætti dálítið úr vandkvæðunum í bráðina, ef breytt væri takmörkum læknishéraðanna í sama horf og áður var, og lækninum í Rangárhéraði gert að beinni skyldu, að sitja einhverstaðar í Hvolhreppi eða utast í Fljótshlíð. Áður fylgdi sem sé að eins Austur-Eyjafjallahreppur Mýrdalslæknishéraði en Vestur-Eyjafjallahreppur Rangárhéraði.

En þegar læknaskipuninni var breytt á seinasta þingi, þá var Vestur-Eyjafjallahreppur einnig látinn fylgja Mýrdalshéraði, og lækninum í Rangárhéraði þá sennilega jafnframt leyft að sitja úti á Rangárvöllum. En þessi breyting hefir gert mönnum í Vestur-Eyjafjalla og Landeyja hreppum enn þá erfiðara fyrir en áður var. Þótt vötnin séu nokkurn veginn jafnvond á báða bóga, Jökulsá og Þverá, þá er íbúum Vestur-Eyjafjallahrepps gert enn þá óþægilegra fyrir, að skylda þá til að leita læknis austur í Mýrdal yfir Jökulsá, ef þarf á honum að halda, heldur en yfir Þverá, í Hvolhrepp. Og aukning óþægindanna fyrir íbúa Landeyjahreppanna við þessa breytingu er öllum auðsæ, þar sem þeir nú verða að leita læknisins út á Rangárvelli, í stað þess áður að eins upp í Hvolhreppinn. Vegalengdin hefir þannig ekki að eins lengst fyrir þá, þegar læknis þarf að vitja, heldur líka bætist við þá ein á til yfirferðar, nefnilega Eystri-Rangá, sem að vísu er ekki ægilegt eða mikið vatnsfall, en getur þó einatt orðið mikil og illfær í vatnavöxtum. Að gera þessa breytingu á takmörkun læknishéraðanna og aðsetursstað læknisins í Rangárhéraði, sem hér hefir verið bent á, verð eg að álíta að bráðnauðsynlegt sé — og það sem allra fyrst — og það sé hið minsta, sem hægt sé að gera fyrir íbúa nefnds hrepps, þangað til réttmætri ósk þeirra um sérstakan lækni verður fullnægt.