12.03.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

6. mál, aðflutningsgjald

Jón Ólafsson:

Eg vil leyfa mér að gera dálitla athugasemd við það, sem hinn háttv. 4. kgk. þm. sagði um það, að útvegsmenn væru skyldugir til þess að nota súrsaft í skipunum. Þetta er að vísu rétt, en eg vil leyfa mér að benda þm. á það, að þeim er leyfilegt að skifta um fæðutegundir, þær sem lögboðnar eru, ef þeir setja aðrar jafngóðar í staðinn, og ég álít, að það sé auðvelt að því er saftina snertir.

Það er undarlegt, að hæstv. ráðherra og aðrir háttv. þm. hafa talað um súrsaft eða berjasafa sem væri misbrúkaður, en hér er ekki um það að ræða, heldur í mörgum tilfellum sem hreint og skært brennivín, sem blandað er með sykri og anilíni o. fl. góðgæti ámóta óhollu, búið til í þeim eina tilgangi, að selja það sem súrsaft og nota hana þannig fyrir skálkaskjól. Það er alveg rétt, að saftin getur orðið áfeng ef hún er geymd; eg hefi jafnvel heyrt sagt að saft, sem flutzt hafi hingað, hafi haldið 7—8 stig.