09.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Flutningsmaður (Skúli Thoroddsen):

Eg get verið stuttorður um þetta frv. Síðasta alþingi veitti konum í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarrétt og kjörgengi í bæjarmálum, og því virðist það ekki hvað sízt óeðlilegt, að konur annarsstaðar á landinu njóti ekki sama réttar. — En auk þessa fer frv. þetta fram á, að vinnuhjúum, jafnt til sveita sem kaupstaða, sé veittur sami réttur, og fer því að þessu leyti lengra, en ofan um getin lög, enda alveg ástæðulaust, að gera þeim lægra undir höfði en öðrum.

Að vísu má kanske segja, að þar sem kosningarréttur og kjörgengi í sveita- og bæjamálum sé bundinn við gjald til sveitar, þá komi þessi réttindi þeim eigi að notum, þar sem þau gjaldi óvíða til sveitar. — En til þessa er því að svara, að heimilt er að lögum, að leggja útsvar á vinnuhjú, og sú mun tízkan í stöku sveitum, að einhverju leyti, enda tel eg víst, að mörg vinnuhjú vilji vinna það til, að gjalda eitthvað til sveitar, t. d. 50 aur. til 1 krónu eða ögn meira gegn því, að fá þessi sjálfsögðu réttindi.