12.03.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

6. mál, aðflutningsgjald

Einar Jónsson:

Eg get ekki betur séð, en að það sé einkennilegt að vera að ræða um það, hvað mikið súrsaft inniheldur af áfengi. Mér finst spurningin um tollhækkunina ekki leika á því, hvort það er heldur 6—7% eða jafnmargar gráður. Það eitt finst mér nægja, að það er meira en nóg áfengi í súrsaft til þess að gera menn drukna, og það má telja víst, að allar saftir séu meira eða minna áfengar, þótt styrkleikinn sé nokkuð misjafn. Brennivín og fleiri sortir áfengis eru mjög mismunandi að gæðum og vínanda styrkleik, þó er tollurinn látinn gilda á því, án tillits til þess. Kaffi, sykur og margt fleira er líka tollað, enda þó vitanlegt sé, að ekkert áfengi sé í því. Eg get því ekki betur séð, en að þingið hafi fulla heimild til að tolla saftina og ákveða tollhæðina, og eg álít það rétt, sem farið er fram á í frumv. Ed. Saftin á sannarlega ekki betra skilið, þegar íhugað er hve illa þeir menn verða úti, sem drekka hana í stað víns. Hún hlýtur að vera nokkurs konar óæti og því ekki vert að fara um hana vægum höndum.