26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

28. mál, útlent kvikfé

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Af því tíðkast hefir í dag að ráðgera breyt.till. til 3. umr., hefi eg viljað stinga upp á, að landbúnaðarnefndin komi með breyt.till. við þetta frumv., er svo hljóði: »Innflutningur fugla, fiska, orma og skorkvikinda og annara þeirra dýra er lifa í vatni og á landi, er bannaður«. Þetta mun ekki að ófyrirsynju, er sjúkdómshættan að ætlun dýralæknis er afarmikil. Jafnvel fiskarnir í sjónum og fuglarnir í loftinu geta flutt hana með sér. Er svo þessi lög öðlast gildi, verður að gera farfuglunum að skyldu að fljúga fyrst inn til dýralæknis, áður þeir mega dreifa sér um landið. Og alt þetta, svo að ekki flytjist til landsins næmir dýrasjúkdómar, sem fari með landbúnaðinn í hundana. En mér fróðari menn í þessu efni hafa reyndar sagt mér, að þeir viti eigi til, að hundapest hafi nokkru sinni flutt til landsins með útlendum hundum.