26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Jón Ólafsson:

Þetta er næstum fárránlegur misskilningur hjá háttv. 2. þm. Árn. (S.S.) Þar sem gert er ráð fyrir í 7. gr. að nemandi í sérstökum tilfellum þurfi að vinna á tímanum milli kl. 9 á kvöldin og 6 á morgnana, þá er það ekki viðbót við þann ákveðna vinnutíma. Þvert á móti dregst það frá. Í lögunum er svo fyrir mælt, að vinnutíminn megi aldrei fara fram úr 12 stundum á dag að meðtöldum námstíma og 2 klukkustundum til hvíldar. Þetta er undantekningarlaus regla, undir öllum kringumstæðum. Til grundvallar þessu ákvæði um að leyfilegt væri að færa til tímann þannig, lá sú skoðun hjá nefndinni, að vert væri að taka sérstakt tillit til kaupmanna og verzlunarstjóra út um land, þar sem t. d. oft ber svo við að póstskip koma um kvöld með vörur og fara eftir fáeinar klukkustundir. Jafnvel hér í Reykjavík geta borið til knýjandi ástæður til að vinna einstöku sinnum eitthvað á þessum tíma. En þá fær nemandinn jafnlangan tíma dreginn frá hinum vinnutímanum — jafnlangt frí. Hér er að eins að tala um flutning tíma, en ekki lenging. Það er svo langt frá að verið sé að gefa kaupmönnum undir fótinn að lengja með þessu vinnutímann, að lögin þvert á móti vernda unglingana og takmarka vinnutímann, sem hingað til er ekkert takmark sett í lögum.