17.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

7. mál, háskóli

Ráðherra (H. H.):

Á síðasta þingi var borin fram í Nd. og samþ. í e. hlj. till. til þingsályktunar um að skora á stjórnina, að semja og leggja fyrir þetta þing frumvarp um stofnun háskóla, sem kæmi í stað þeirra 3 æðstu mentastofnana, sem nú eru, prestaskóla, læknaskóla og lagaskóla.

Stjórnarráðið áleit, að rétt væri að verða við þessari áskorun og fól forstöðumönnum þeirra 3 embættisskóla, sem hér eru, að undirbúa málið, koma fram með frumvarp og tillögur um stofnun háskóla og fyrirkomulag á honum. Nú hafa forstöðumenn þessara skóla, settur forstöðumaður prestaskólans Jón Helgason, lagaskólastjóri Lárus H. Bjarnason og landlæknir Guðmundur Björnsson, samið og sent stjórnarráðinu tvö frumvörp, annað um stofnun háskóla, og hitt um laun háskólakennara.

Þingsályktunin ber með sér, að það hefir aðallega vakað fyrir þinginu 1907, að sameina þrjá æðri mentaskóla landsins í eina heild. Í frumvarpi stjórnarinnar, sem hér liggur fyrir, er þessu fylgt, og því bætt við, að kend yrði íslenzk sagnfræði og málfræði. Þessar greinar yrðu svo í sérstakri háskóladeild, heimspekisdeild.

Það má fullyrða, að það hafi lengi vakað fyrir þingi og þjóð, að þegar lagaskóli væri fenginn hér á landi, þá væri stofnun háskóla sjálfsögð. Nú er lagaskólinn kominn á stofn og þar með því skilyrði fullnægt.

Að vísu mun háskóli hér á landi eiga við marga erfiðleika að stríða, fyrst og fremst vegna fólksfæðar hér og í öðru lagi vegna fátæktar þjóðarinnar. Þetta getur þó ekki verið því til fyrirstöðu, að vér notum háskólanafnið um æðstu mentastofnun vora.

Það er auðvitað, að háskóli hér á landi getur ekki komið til jafns háskólum stærri þjóða í ýmsum greinum. Þó ætti að sjálfsögðu að vera betra að nema íslenzk lög hér en annarsstaðar, og líkt ætti að ráða um kenslu í íslenzkri sögu og málfræði. Stjórnin hefir fallizt á frumvarp forstöðumanna embættisskólanna, og tekið það upp að mestu óbreytt. Þó hafa ýmsar smábreytingar verið gjörðar, er forstöðumennirnir hafa aðhylst. Aftan við 29. gr. frumv. hefir verið bætt ákvæði um það, að próf frá háskólanum nýja veiti allan sama rétt til embætta hér á landi, eins og próf frá Kaupmannahafnarháskóla hafa veitt hingað til, og aftur hins vegar, að próf frá Kaupmannahafnarháskóla haldi gildi sínu til embætta hér á landi, þó svo, að þeir fullnumar í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla, sem útskrifast þaðan eftir 1. okt. 1911, þann dag, er stjórnin vill láta lög þessi öðlast gildi, verði að leysa af hendi aukapróf við lögfræðisdeildina hér á landi, áður þeir öðlist rétt til lögfræðisembætta, og er þetta í samræmi við það sem nú er ákveðið í lagaskólalögunum.

Forstöðumenn skólanna hafa ennfremur borið fram lausa áætlun og tillögur um bygging á húsi handa háskólanum. En af því að svo margar þarfir og nauðsynjar kalla að, sá stjórnin sér ekki fært að þessu sinni að koma fram með frumv. í þessa átt. Slík bygging er heldur ekki skilyrði fyrir því, að háskólinn komist á fót. Fyrst um sinn yrðu háskóladeildirnar að bjargast eins og áður hver á sínum stað í því húsnæði, sem hægt er að fá. Síðar væru svo möguleikar, áður en langt um liði, að koma upp sérstakri byggingu handa skólanum.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en að eins leyfa mér að vísa til þeirra athugasemda, sem prentaðar eru aftan við frumvarpið, og fela það velvild háttv. deildar, sem eitt af helztu velferðarmálum þjóðarinnar, sem ætti að geta orðið ein af lyftistöngunum til þess, að hefja menning og framtíðarþroska þjóðarinnar, og auka henni gengi og álit í augum annara þjóða.