29.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Sigurður Sigurðsson:

Þótt breyt.till. nefndarinnar séu margar, eru þær eigi svo víðtækar, sem eg hefði á kosið. Hefi eg borið þetta frumv. saman við lög frá 16. sept. 1893, og sé eg eigi, að þetta sé neitt til bóta frá ákvæðum gildandi laga. Eg held meira að segja, að þau séu í sumum tilfellum óaðgengilegri en ákvæði gömlu laganna. Álít eg, að hin háttv. deild gerði réttast í að fella þetta frumv., því fátt nýtt er í því, sem tekur nokkuð fram, er þýðingu hafi. í 13. gr. eru ákvæði, sem ekki eru í gömlu lögunum, um ágreining milli nemanda og vinnuveitanda og skulu hvorir tilnefna tvo menn, en bæjarfógeti velur oddamann. Tek eg þetta fram af því, að eg álít með þessu tylt undir þann sterkara, því í slíkum gerðardómum mun meira tillit tekið til vinnuveitanda en nemanda.

Það væri ókurteist af mér að kvitta ekki fyrir lofið, en eg ætla að gera það að hætti 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), sem altaf hnýtir í menn. Það er svo langt frá, að eg ætli að fara að lasta hann, þvert á móti; því ef hann hefði fjallað meira um mál þetta frá byrjun, myndi það miklu betur úr garði gert, En nú eru það kaupmenn, sem samið hafa þetta umrædda frumv., og er ekki líklegt, að þeir halli á sjálfa sig. í frv. er talað um, að nemendur skuli hafa vikufrí á sumrum, en hingað til hefir verið sagt, að þeir ættu að hafa 10 daga frí. Er slíkt ekki til bóta. Sama má og segja um hinar verklegu æfingar við skrifstofustörf, að hægt mundi vera að telja til þeirra að færa »kladda«.

Annars hefir viðkomandi háttv. þm. játað, að honum sé þetta ekki kappsmál og tel eg hann að mann meiri.