22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Verzlunarmálanefndin hefir á ný haft frumv. þetta til meðferðar eftir að h. Ed. hefir gert nokkrar breytingar á því. Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að réttast væri að leggja það til við háttv. deild, að hún samþ. frumv. með þeim breytingum, sem getið er um að standa á þgskj. 557, frá verzlunarmálanefndinni.

1. breyt.till. á þessu þgskj. er við 5. gr. frumv. og er þar ætlast til að í stað orðanna: »Fyrstu 3 mánuðina« komi: Fyrstu 2 mánuðina.

Neðri deild hafði áður sem kunnugt er, litið svo á, að nægilegt mundi að setja 1 mánuð, sem reynslutíma, en háttv. efri deild hafði svo fært þennan tíma upp í 3 mánuði. En þessi tími þótti okkur nefndarmönnunum of langur af þeirri ástæðu, að það gæti svo farið, að hægt væri að misbrúka hann. Þótti því nauðsynlegt að koma í veg fyrir það.

2. breyt.till. á sama þingskj. er við 11. gr. Hún miðar að því, að fyrsti töluliður 11. gr.: »Þá er verzlunarstjórnandi deyr«, falli burt. Ástæðan til þessa er sú, að ónauðsynlegt þótti og jafnvel með öllu órétt, að námssamningurinn yrði ógildur fyrir þá sök, að verzlunarstjórnandinn félli frá, því að venjulega mun þá vera einhver annar, er verzluninni veitir forstöðu, enda gæti þá samningurinn staðið áfram.

Einnig er farið fram á þá breytingu á 11. gr., að 2. töluliður er þá verður 1. töluliður orðist þannig:

»Þá er verzlun hættir eða eigandi hennar verður gjaldþrota«.

Það þótti ekki rétt, að hér stæði: ef verzlunarstjórnandi o. s. frv., með því að þau umskifti gætu orðið all-oft. — Hitt þótti heppilegra, eins og nú er látið vera.

3. liður verður þá einnig 2. liður.

3. liður orðist þannig: »Þá er verzlunarstjóri deyr, ef nemandi óskar þess, að samningi sé slitið« (með samþykki fjárráðamanns, ef svo á stendur).

Eg skal leyfa mér, að geta þess, að eg hefi átt tal við einn háttv. þingm. úr efri deild, er situr í nefnd þeirri, er þar var skipuð í þetta mál — og eftir samtali við hann, þá hefi eg ástæðu til að ætla, að háttv. efri deild muni ekki amast við þessum breyt.till., þegar þangað kemur.

Annars er ekki þörf á því, að farið sé öllu frekara út í þetta mál, þar sem það er áður margrætt hér í deildinni, enda ekki ástæða til þess að gera frekari breytingar á frumv., en eg nú hefi nefnt.

Nefndin ræður því háttv. deild til þess að samþykkja frv. með þessum breytingum, er um getur á þskj. 557.