17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

30. mál, girðingar

Framsögumaður (Sigurður Sigurðsson):

Eg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frumv., en mér þykir þó eiga við að gera grein fyrir því, hvernig það er til orðið og tilgangi þess. Eins og hinni hv. deild er kunnugt voru samþ. lög um girðingar á alþ. 1903, hin svo nefndu gaddavírsgirðingalög. Lög þessi heimila að veita bændum lán til að kaupa fyrir girðingarefni frá útlöndum. En lögin falla úr gildi við næstu áramót og með þeim fellur einnig þessi lánsheimild burt. Hins vegar hafa komið fram ýmsar raddir frá bændum um að þeir framvegis gætu átt kost á svipuðu láni til þess að geta útvegað sér girðingarefni frá útlöndum. Það er því eftir óskum margra merkra bænda, að landbúnaðarnefndin hefir tekið málið til íhugunar og komið fram með þetta frumv. Frumv. byggist á því að landssjóður eða réttara sagt alþ. heimili stjórninni að verja til lána handa bændum og samgirðingafélögum alt að 20000 kr. á ári til að kaupa girðingarefni frá útlöndum. Að fjárlaganefndin ekki hefir tekið þessa lánsheimild enn upp í fjárlagafrv. stafar af því, að hún hafði ekki séð eða kynt sér þetta frv. En eg vona að hún taki málinu vel. Frumv. þetta er að ýmsu leyti frábrugðið núgildandi túngirðingalögum; mörgum ákvæðum þeirra laga slept og öðrum nýjum bætt við. Þannig inniheldur frv. almenn ákvæði um fyrirkomulag girðinga, er miða að því, að tryggja það, að þær verði betur gerðar en verið hefir að undanförnu. Einnig inniheldur frv. það nýmæli, að sýslunefndir og hreppsnefndir geti gert bindandi samþyktir um girðingar og miðast það einkum við samgirðingar, sem nú eru óðum að ryðja sér til rúms. Eg treysti nú því, að allir sjái, hve þýðingarmikið mál þetta er. Girðingar eru eitt af aðalskilyrðunum fyrir aukinni jarðrækt og þá um leið fyrir framförum landbúnaðarins. Það fyrsta sem bóndinn þarf og verður að gera við jörðina sína er að girða hana og friða; annars er öll jarðyrkja í hættu. Á seinni tímum hefir áhuginn á girðingum farið mjög vaxandi og margir hafa klofið til þess þrítugan hamarinn að fá tún sín girt. Sem sönnun þess, hvað girðingar hafa aukist síðustu árin, má geta þess, að árið 1906 voru gerðar girðingar, sem nemur 17 mílum og 1907 námu þær 33 mílum. En þótt þetta, sem hér var nefnt beri vott um mikinn framgang vantar þó mikið á, að máli þessu sé komið í æskilegt horf. Eg skal líka benda á annað í þessu máli. Þó að girðingar víða hafi farið í vöxt, hefir þó oft verið sá agnúi á, að þær hafa ekki verið nógu traustar og vel úr garði gerðar, og því ekki komið að verulegum notum. Úr þessu er reynt að bæta með frumv. í því eru ákvæði um það, hvernig girðingar skuli gerðar, hvað háar þær eigi að vera, o. s. frv. Þetta er mjög nauðsynlegt og vona eg, að það mæti ekki mótspyrnu.

Áður hefi eg minst á nýmælið um samþyktarvald sýslunefnda og hreppsnefnda og skal eg eigi fjölyrða frekar um það. Að öðru leyti skal eg ekki fara fleirum orðum um málið að svo stöddu, nema einhverjir vilji í móti mæla. Vona að hin háttv. deild taki því vel, því að það er áhugamál allra, sem landbúnað stunda og okkur í landbúnaðarnefndinni sannarlegt hjartans mál.