29.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

32. mál, friðun silungs

Framsögumaður (Pétur Jónsson):

Eg vona, að eg þurfi ekki lengi að skýra þetta frumv. fyrir háttv. þingdeild. Frumv, er mjög líkt að formi frumv. því, sem nýlega var samþ. hér (frumv. um kornforðabúr). Hið sérstaka við þetta frumv. er það, að ef 3 menn eða fleiri eiga veiði saman í vatni, getur meiri hluti þeirra krafist, að sýslunefndin gangist fyrir samþykt um veiðina. Hér er þannig breytt frá því sem er í öðrum samþyktarlögum; í slíkum lögum er frumkvæðisvaldið optast hjá sýslunefndum, en í þessu frv. hafa þeir frumkvæðið, sem veiðina eiga. Í öðru lagi er víðast heimtað í slíkum samþyktarlögum ? atkvæða til þess að samþyktin komist á; hér er það ? atkvæða. Það getur oft staðið svo á, að hart sé að ? ráði því að samþykt kemst eigi á; svo lítill hluti getur setið yfir hlut allra hinna. Eg þorði þó ekki að leggja til, að einfaldur meiri hluti skyldi ráða, heldur fór bil beggja, ? . Í þriðja lagi er þá hið sérstaka efni samþykta þeirra, er frumv. ráðgerir og heimilar; í 7. gr. er sem sé heimilað að gera samþyktir um friðun á riðasilungi og riðastöðvum um ákveðinn tíma árs eftir staðháttum og um friðun ófullþroska silungs, enn fremur um tilhögun netja og annara veiðivéla, t. d. möskvastærð.

Þetta er þá það, sem þetta frumv. hefir sérstakt móts við önnur sams konar lög. Eg vona, að menn sjái, að hér er engin hætta á ferðum um það, að einstakir menn nái valdi yfir veiðiskapnum, þar sem heimtað er að minst ? þeirra, sem í hlut eiga, séu samþyktinni fylgjandi. Því vona eg, að frumv. fái greiðan gang bæði við þessa umr. og út úr deildinni.