14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson:

Háttv. 1. þm. G. & K. (B. K.) kvað það sýna, að bænum væri þetta áhugamál, að hann hefði keypt forkaupsréttinn af ábúandanum fyrir 200 kr. árlega. Við þetta er það að athuga, að ábúandinn hefir ekki rétt til að selja forkaupsrétt sinn. Eg verð að skilja svo lögin um forkaupsrétt leiguliða, að noti ábúandi ekki forkaupsréttinn á hlutaðeigandi sveitarfélag hann. Í annan stað er þetta ekki svo ýkja mikið í sölurnar lagt, því að ábúandinn er gömul kona, komin á grafarbakkann, svo að ólíklegt er, að bærinn þurfi að greiða þetta 200 kr. árgjald um langa tíð.

Það er annars leitt, hvað háttv, þd.menn eru ókunnir staðháttum og hvernig landi hagar í grend við Akureyri. Væru þeir þessu nokkuð kunnugir mundu þeir fallast á það með mér, að ekki bæri svo brýna nauðsyn til þessarar sölu, að þinginu sé skylt að brjóta bág við gildandi lög. Eg vona, að

ekki þurfi til þess að taka að hækka verð jarðarinnar, jafnvel þótt mér þyki sennilegt, yrði Hrafnagilshreppi unt þess að nota sinn forkaupsrétt, að þá mundi hann ekki sleppa þeim rétti, þótt verðið væri sett til muna hærra. En sem sagt, vona eg, að það komi ekki til, heldur sýni háttv. þingd. þá einurð, hvað sem líður »agitationum« einstakra manna, að hún felli frumv.