17.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason):

Nefndin getur verið hv. þm. V.-Ísf. þakklát fyrir það, að hann er henni samdóma um efnisbreytingarnar. Hitt skiftir minna máli um smábreytingarnar.

Hann fann að því, að nefndin leggur til að hafa »prófessor« í stað »aðalkennari«. Það skiftir nú raunar ekki miklu máli hvort er; eg geri það að minsta kosti ekki að neinu kappsmáli. Mér er hérumbil sama, hvað eg er kallaður; það er meir undir því komið, hvað maður er. En hins vegar eru ýmsar ástæður til að lögleiða orðið prófessor, sem löngu er komið inn í daglegt mál vort og ritmál. Sé orðið »háskólakennari« lagt út á dönsku eða norsku, verður það »Højskolelærer«. En í dönsku, norsku og sænsku táknar það ekki kennara við háskóla — Universitet —, heldur kennara við svokallaða lýðháskóla. Og úr því háskólinn á að vera eftirmynd samskonar skóla erlendis, þá vildum við líka hafa sömu nöfn. Mér þykir ekki minna vænt um íslenzkuna en háttv. þm. V.-Ísf., og þó get eg ekki séð neitt á móti því, að nota þetta orð, og það því síður, sem við höldum mörgum öðrum orðum, sem líkt er ákomið, svo sem stúdent, kandídat, o. s. frv. Auk þess er þessum orðum haldið í nálega öllum málum, að minsta kosti þekki eg ekkert mál, sem ekki hefir haldið þeim. Og því á þá að amast við þeim? Því á að amast við því, að kennararnir hafi það heiti, sem þeir verðskulda. Enda er prófessors nafnið ekki nýmæli í íslenzku. Finnur Magnússon var altaf kallaður prófessor. Og svo eru kennarar við útlenda háskóla kallaðir þann dag í dag. — Við eigum ekki að hlaða kínverskan múr utan um íslenzkuna; við eigum að leitast við að auðga hana og fegra. Útlend orð geta verið gróði fyrir málið, ef þau eru smekkleg og handhæg. Í ensku og þýzku, að eg ekki nefni frönsku, er aragrúi af latneskum og enda grískum orðum, og amast enginn við þeim. Útlend orð eru heldur ekki ókunn í lögum vorum. Á síðasta þingi var t. d. heilt kerfi af útlendum orðum innleitt í lagamálið með metralögunum. — Þó er mér þetta, eins og eg hefi þegar tekið fram, ekkert kappsmál. En verði prófessorsnafninu bygt út, þá verður að gjöra öðrum útlendum orðum sömu skil, svo sem orðunum stúdent, kandidat og doktor. Og þess verður að gæta, að háskólakennari samsvarar ekki prófessor. Við hinn fyrirhugaða háskóla vorn eiga að vera tvennskonar kennarar, eins og við erlenda háskóla, prófessorar og dósentar, eða aðalkennarar og aukakennarar, þeir heita einu nafni háskólakennarar, Universitetslærere, en innan þessa heildarheitis eru 2 flokkar: prófessorar, aðalkennarar og dósentar, aukakennarar. — 6. breyt.till. við 7. gr. frv., er í rauninni ekki annað en orðabreyting. Eftir frv. stjórnarinnar er kennurum háskólans skift í tvo aðalflokka, aðalkennara og aðstoðarkennara. Síðari flokknum er aftur skift í tvent, dósenta og aukakennara. Dósenta átti að kalla þá, sem hefðu kensluna að einkastarfi, en aukakennara þá, sem hefðu önnur störf að aðalstarfi, eins og héraðslæknir, tannlæknir o. fl. nú hafa við læknaskólann. Sumum nefndarmönnum þótti þessi skifting óþarflega margbrotin, þótti óbrotnara að hafa að eins 2 flokka, prófessora og dósenta, og varð það úr, að þessu var breytt þannig.

Eg er háttv. þm. V.-Ísf. þakklátur fyrir það, að hann benti á ósamræmi milli kenslumissiris og háskólamissiris, og kensluárs og háskólaárs.

Sömuleiðis er það rétt athugað hjá honum, að »hún« í 31. gr. 1. málsgr. á að breytast í »það«, sem afleiðing af því, að háskóla-nefnd er breytt í háskóla-ráð. Nefndinni hefir skotist yfir það, og mun hún sjá um að hvorttveggja verði leiðrétt.7. breyt.till. vill háttv. þingm. láta bera upp í tvennu lagi, líklega vegna orðsins »dekani«. Mín vegna má gera það. En eg vil skjóta því til hans, hvort ekki væri heppilegra, að hann bæri sig saman við nefndina til 3. umr. um þetta atriði og önnur, sem hann er henni ósamdóma um. Þá þyrfti ekkert blóð að renna í dag í þessu góða máli. Raunar er eg ekkert smeikur um »dekanann« (djáknann), en mér finst sú aðferð liðlegust.

Eg skal játa það, að breytingin í tölulið 12 (við 17. gr.), að á eftir: »Hver sá« komi orðin: »kona sem karl«, er í rauninni óþörf, en hún var gerð eftir tillögu eins nefndarmanns.

Breyt.till. í tölul. 17, að »aftur« komi í stað »að nýju«, skiftir ekki máli.

Breyt.till. í tölul. 18, að »endurtaka prófið« komi í stað »ganga undir prófið að nýju« er runnin frá sama háttv. nefndarmanni, sem breyt.till. í 12. lið, og skiftir sömuleiðis litlu máli, en hins vegar virðast mér aðfinslur háttv. þm. V.-Ísf. hér að lútandi óþarfar, og jafnvel rangt, að ekki sé rétt að segja um mann, sem gengur undir prófið að nýju, að hann »endurtaki próf«. Það er líku máli að gegna um orðin »nemandi« og »stúdent« sem um aðalháskólakennari og prófessor, nema hvað orðið stúdent hefir þó það fram yfir hitt, að það er ávalt brúkað í daglegu tali. Og eg get ekki varist þess að játa, að það er svo mikill »akademikus« í mér, að eg vil heldur halda orðinu stúdent. Háskólanemandi yrði líka beinlínis villandi, væri það lagt út á dönsku eða norsku, enda miklu lengra og stirðbusalegra en stúdent.

Þá eru tæmdar athugasemdir háttv. þm. V.-Ísf., og skal eg geta þess enn, að eg er honum þakklátur fyrir tillögur hans um það sem betur má fara.

Hins vegar þótti mér miður að hann gat ekki hugsað sér, að háskólinn yrði hafður í efri bygð Mentaskólans; honum fanst það leitt, að þurfa að benda á Mentaskólann sem háskólahús. Mér þótti þetta leitt af því, að verði Mentaskólahúsið ekki notað, verður því ver líklega lítið úr stofnun háskóla fyrst í stað. Og svo get eg með engu móti kannast við, að það geti verið nein ástæða móti því, að notast við Mentaskólahúsið í bráð, að skemtilegra væri að geta bent útlendingum á veglegt sérstakt hús. Vér, sem fylgjum háskólamálinu, fylgjum því vegna þess, sem það er í raun og veru; leggjum minni áherzlu á húsið en stofnunina. Vér leggjum aðaláhersluna á það, að stofnunin sé góð og líkleg til viðgangs.

Bezt væri auðvitað, ef hægt væri að byggja strax veglegt hús fyrir háskólann. Og eg vil segja það, að land, sem er nýlega búið að eyða stórri fjárupphæð í stundargaman, ætti að hafa ráð á því að leggja fram líka eða jafnvel minni upphæð til annarar eins stofnunar og háskóli er. Það ætti að hafa ráð á, að tryggja sér langt og dáðríkt líf með ekki meira framlagi, því í raun og veru kaupir þjóðin sér nokkurskonar ábyrgð á lífi sínu með stofnun háskóla. Hann mundi öllum öðrum stofnunum fremur auka hið innra megn þjóðarinnar, og á því hlýtur öll lífsvon þeirra að byggjast, sem ekki hafa hið ytra megnið. Eg skyldi glaður greiða atkvæði með nauðsynlegri fjárveitingu til sæmilegrar háskólabyggingar nú þegar. En á hinn bóginn álít eg, að vel megi notast við efri bygð Mentaskólans fyrst um sinn.

Að endingu vil eg aftur skjóta því til háttv. þm. V.-Ísf., hvort hann vill ekki lofa breyt.till. nefndarinnar að ganga óáreittum gegn um þessa umræðu málsins, ræða síðan við nefndina þau atriði í þeim, sem honum mislíka, og koma svo við 3. umr. með breyt.tillögur um það, sem ekki verður samkomulag um.