16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson:

Það er alt af hálf gremjulegt, þegar menn gefa sig í að ræða það mál, sem þeir þekkja lítið inn í, en þó er það máske afsakanlegt á meðan þeir ekki rengja það, sem þeim kunnugri menn hafa sagt um málið. Þetta á sér að nokkru leyti stað hvað snertir ræðu hins h.

2. þm. Húnv. (B. S.), þegar hann segir, að þessi sala væri líklegur vegur til þess að jörðin yrði betur ræktuð en annars væri hugsanlegt; þessi ummæli sýna, að hann er als ekki nægilega kunnugur staðháttum. Eg er þess fullviss, að ef Akureyrarbær ætlaði að fá sér land beinlínis til ræktunar, þá myndi hann taka til þess eitthvað af sínum móum, sem liggja miklu nær, t. d. Í Nausta- og Eyrarlandslandi, áður en farið væri að seilast eftir samskonar landi inn á Kjarna í þessu skyni. En það er víst, að Akureyrarbær sér sér stóran hag í að ná í þessa jörð vegna engjanna og túnsins, því auðvitað verður mestallur afrakstur jarðarinnar fluttur burt af jörðinni til Akureyrar, og kemur þar af leiðandi sveitarfélaginu í Hrafnagilshreppi, sem beinar tekjur, að mjög litlu liði, — enda væri að öðrum kosti lítt skiljananlegt, að allur þorri hreppsbúa skuli fara fram á, að verði jörðin seld — sem verði þó að teljast mjög ósennilegt, þar sem það sé þvert ofan í ákvæði sýslunefndarinnar áður — þá fái hreppurinn að sitja fyrir kaupunum. Þessi ávinningur Hrafnagilshrepps af sölunni til kaupstaðarins, sem háttv. þm. var að tala um, er því svo barnaleg ástæða, að henni þarf ekki að svara með öðru en benda á beiðni sveitarfélagsins. Og þótt maður sá, sem háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) hafði fyrir sér í þessu efni, sé máske kunnugur í Eyjafirði, þá gæti eg þó engu síður trúað, að áliti þess góða manns hafi fremur ráðið vilji bæjarfélagsins og hagur þess, en óskir Hrafnagilshreppsbúa. Honum gæti máske verið það áhugamál, að uppgripaheyskapur fengist fyrir einstaka kaupstaðarbúa, enda þótt það væri á kostnað Hrafnagilshrepps.

Eg vona fastlega, að þetta frumv. verði felt hér í deildinni, því eg get ekki ætlað, að hin háttv. þingdeild leyfi sér að ganga í berhögg við gildandi lög, þegar ekki liggja til þess neinar knýjandi ástæður. Auk þess er verðið, sem stungið er upp á í frv. of lágt að mínu áliti, og þyrfti það þá að athugast betur til 3. umr., sé þess enginn kostur að fresta sölunni.