16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

36. mál, sala á Kjarna

Pétur Jónsson:

Eg held eg megi fullyrða, að eg hafi hugsað eins mikið um ræktun landsins eins og h. 2. þm. Rvk. (M. Bl.). Það er eins og hann haldi að aðrir geti ekki rent grun í hvað kaupstöðunum sé fyrir beztu, en þeir sem búa í kaupstöðunum. En eg get fullvissað hann um, að eg hefi einmitt hugsað mjög mikið um þarfir kaupstaða og annara þorpa að því er til nauðsynlegs lands kemur.

Í þessu máli veltur á því, hvort landssjóður vill selja jörðina, eða hvort nokkur veruleg þörf er á því fyrir Akureyrarbæ að fá þessa jörð. Eg get í þessu sambandi gefið upplýsingar um það að Akureyri á yfirdrifið land til ræktunar; þetta virtist h. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) ekki vita. Mér dettur ekki í hug að hafa á móti því að menn í kaupstöðum hafi kálgarða, en að taka stór engjaflæmi og leggja þau undir bæ, sem áður hefir mikið land, sýnist mér mildast talað vera þarfleysa. En líklega á að friða samvizku einhvers með þessum lögum, en hvort sem ofan á verður með þetta mál, sem virðist nú vera orðið flokksmál, þá er mín samvizka jafn róleg. Eg er á móti þjóðjarðasölu yfirleitt, og eg álít það sérstakan skaða fyrir landssjóð að þessi jörð sé seld, hver sem hana kaupir.