16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

36. mál, sala á Kjarna

Hannes Hafstein:

Eg hefi ekki mörgu við það að bæta, er háttv. samþingismaður minn (St. St.) hefir sagt um þetta mál. En eg vil að eins benda á það, að litlar líkur eru til þess, að rætast muni ræktunarvonirnar í bráð, þó að Akureyrarbær eignist Kjarna, enda mun engan veginn sá vera tilgangurinn, því að bærinn hefir nægilegt land til ræktunar miklu nær sér; tilgangurinn með kaupin mun öllu fremur vera að hafa land jarðarinnar til beitar og slægna, án sérstakrar ræktunar.

Reykjavík hefir keypt Klepp og Laugarnes, en hve mikið hefir verið ræktað síðan af öllu því landflæmi, sem jarðir þessar ná yfir? Hafa þau jarðakaup verið jarðræktarinnar vegna eða orðið jarðræktinni til eflingar? Eg hygg að óhætt sé að fullyrða hið gagnstæða. Miklu fremur hafa þessar jarðir eyðilagst sem ræktaðar jarðir, bærinn hefir neyðst til að nota þær mestmegnis til hagbeitar fyrir alt of marga hesta og eru þær eðlilega uppurðar af því. Akureyri mundi fara betur með Kjarna, því hún hefir svo mikið land annað til beitar og afnota; en ekki er nauðsynin að brýnni fyrir það.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) gat þess, að hann hefði átt tal við kunnugan mann þar úr sveitinni um þetta mál, og hann hefði sagt, að hreppnum væri enginn skaði í því að jörðin sé seld til kaupstaðarins. Það hlýtur að vera einkennilega vitur maður, ef hann veit þar betur en allir aðrir hreppsbúar með hreppsnefndina í broddi fylkingar. En ekki hefir hann verið kjósandi í hreppnum, því að nú liggur hér frammi á lestrarsal alþingis áskorun frá öllum kjósendum í Hrafnagilshreppi, þar sem salan er talin skaðleg hreppnum og því skorað á þingið að heimila hana ekki.

Því fer mjög fjarri, að eg eða aðrir, sem þessari sölu erum mótfallnir, viljum að neinu leyti koma í bága við hag kaupstaðanna, en vér sjáum hins vegar enga nauðsyn á því, að ójöfnuði sé beitt við fátækt hreppsfélag. — Og það vona eg að menn sjái, að hreppnum gæti stafað hætta af því, ef Akureyrarbær sendi fátæklinga sína til nokkurskonar þurrabúðarvistar á Kjarna, sem hreppsnefndin ekki getur amast við eftir hinum nýju ákvæðum um húsmenn og þurrabúðarmenn í 10. gr. laga 22. nóv. 1907 og gætu þessir menn orðið sveitlægir í hreppnum.

Ef það því sannaðist, að Akureyri þyrfti á þessari jörð að halda og álitið yrði rétt að selja bænum hana, þá væri þó að minsta kosti nauðsynlegt að ákveða jafnframt, að jörðin skuli lögð undir sveitarfélag bæjarins. Án þessa væri óréttlátt að selja bænum jörðina, þvert ofan í skýlaus mótmæli og kröfu hreppsnefndar og hreppsbúa.

Til þess að gera þá breyting að leggja jörðina undir sveitarfélag Akureyrar, þarf auðvitað undirbúning, sem ekki er fyrir hendi. En það getur að minsta kosti ekki bráðlegið svo á þessari sölu nú, að þeir sem annars vilja hlynna að henni geti ekki beðið næsta þings, því að þá mætti vera búið að koma því svo fyrir, að sveitarfélaga-breytingin gæti fram farið um leið. Fyr er engin þörf né sanngirni að hraða þessu.

Þótt hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk.Th.) gæfi í skyn, að þetta væri orðið flokksmál, þá á eg bágt með að trúa því að svo stöddu. Og það nær ekki nokkurri átt að minni hlutinn hafi gert það að flokksmáli. Það hefir ekki komið til orða, hvað þá heldur meira, enda væri það skrítin ráðstöfun af minni hluta, að fara að fyrra bragði að setja mál á odd á þann hátt. Það er meiri hlutinn, sem hlýtur að ráða úrslitum, þar sem um flokksmál er að ræða. — En þetta litla mál skortir öll skilyrði til þess að geta verið flokksmál; hér getur ekki verið um neinar sérstakar stjórnmálastefnur eða skoðanir að

ræða, heldur að eins um sanngirni, sem bæði meiri hluta og minni hluta ætti að vera jafnant um að sýna. Hér er að ræða um rétt og hag lítils sveitarfélags, sem flýr á náðir alþingis með beiðni um, að ekki sé undið að ráðstöfun, sem það telur sér til tjóns og öðrum ónauðsynlega.

Eg vona því að háttv. þingdeild vindi ekki bráðan bug að því, að samþykkja þetta frumv., að minsta kosti ekki á þessu þingi. Réttast væri að fella það nú þegar.