16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

36. mál, sala á Kjarna

Magnús Blöndahl:

Eg stend aðallega upp til þess, að mótmæla samanburði háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) um Laugarnes og Klepp. Okkur, sem hér þekkjum til, er það ljóst, að í Laugarnesi er ekki svo lítið landflæmi afgirt og ræktað.

Því kynlegri virðist mér samanburður háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) um málið, en afsakanlegur kann hann að vera, þar sem þessi háttv. þm. mun hafa hugsað um annað meira en ræktun Reykjavíkurlands.

Ef nú til þess kæmi, að Kjarni yrði seldur, teldi eg sjálfsagt að hann yrði sem allra fyrst lagður undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar.

Eg vil benda hinum háttv. þm. á það, að með því að hlynna að kaupstöðunum, hlynnum vér jafnframt að landbúnaðinum og landsmönnum í heild sinni. Þegar því svona löguð mál liggja fyrir, á ekki að vera um neinn matning eða hreppapólitík að ræða.

Eg skal hér ekki dæma svo mikið um það, hvort bænum liggur á jörðinni nú þegar eða ekki. En ef það skyldi nú verða ofan á, að annaðhvort sýslan eða hreppurinn keypti hana fyrst, gæti hæglega svo farið, að bænum yrði síðar meir, bæði vegna verðlags eða annara ástæða, gert þar með ómögulegt eða lítt kleyft að komast yfir jörðina.

Það hlýtur hverjum heilvita manni að skiljast, að ræktun landsins gengur fljótar fyrir sig, ef margar hendur vinna að henni, og þess vegna finst mér ekki rétt að gera þeim mönnum, er við slík störf vilja fást og hafa áhuga á þeim, örðugra fyrir en þörf er á.

Eg hefi viljað líta sanngjörnum augum á mál þetta og mun gefa því atkvæði mitt hér í deildinni.