19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

36. mál, sala á Kjarna

Björn Kristjánsson:

Mál þetta virðist vera talsvert deilumál. Hér er um tvö sveitafélög að ræða, er bæði hafa jafnan rétt að fala kaup á jörðinni, en hvorugt neinn kröfurétt. Þegar þannig er ástatt, verður að mínu áliti að líta á það, hvoru sveitarfélaginu sé meiri þörf á að eignast jörðina. Hrafnagilshreppur hefir nóg graslendi, og sýnist því ekki þurfa við sig að bæta, en Akureyrarkaupstaður aftur á móti hefir það af mjög skornum skamti, svo að bærinn hlýtur að líða við það. Reykjavík t. d. hefir svo lítið graslendi, að við verðum að kaupa mjólkina fyrir 20 aura pottinn. Það getur nú verið, að mjólkurverðið sé ekki enn þá orðið eins gífurlegt á Akureyri, en vafalaust verður þess ekki langt að bíða, ef bænum ekki eykst landrými, og fæ eg ekki betur séð, en að það sómi sér vel fyrir þing og stjórn, að stuðla að því, að fátækir borgarar bæjanna fái ódýra mjólk og nægilega. — Mér mundi finnast óviðkunnanlegt, ef t. d. Mosfellssveit færi að amast við þótt Reykjavíkurbær keypti t. d. Digranes. En einmitt svona stendur á hér. Hrafnagilshreppur vill amast við að Akureyrarbær fái jörðina til þess að bæjarbúar fái ódýrari mjólk. — Þegar nú svona stendur á, að bærinn þarf að fá slægju til þess að geta haft nægilega og ódýra mjólk, þá blandast mér ekki hugur um, að full sanngirni mæli með því, að Akureyri fái jörðina keypta. Hitt finst mér sjálfsagt, að jörðin verði lögð undir Akureyri, þó það sökum tímaskorts ekki verði hægt að þessu sinni. Mér finst því rétt að selja Akureyri jörðina. Hér liggur fyrir breyt.till. um að hækka söluverðið upp í 12,000 kr., og grunar mig, að hún sé sprottin af því, að gera eigi bænum erfiðara fyrir að ná í jörðina. Eg hefi haldið því fram, að annaðhvort skyldi selja þjóðjarðir eftir mati óvilhallra, dómkvaddra manna, eða þá als ekki selja þær. Að kaupa eða selja eftir slumpverði og ágizkunum er í alla staði óviðeigandi. — En bezt gæti eg trúað, að br.till. þessi væri tilraun til að drepa málið.