19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) tók það fram, að hann áliti rétt, að Akureyrarbær fengi keypta jörðina Kjarna, en eins og eg áður tók fram, álít eg söluna mjög viðsjárverða, bæði hvað verðið snertir, sem hún á að seljast fyrir, og á hina hliðina væri sjáanlega misboðið, bæði sýslunefnd Eyfirðinga og sveitarfélagi Hrafnagilshrepps.

Háttv. þm. G.-K. (B. Kr.), var að tala um, að Akureyrarbúar hefðu ónóga mjólk — og að hún væri nú þegar dýr — en mundi þó verða dýrari; en ef þeir fengju þessa jörð þá mundi það verða til þess, að hinir fátækari borgarar Akureyrar, mundu fá bæði meiri og ódýrari mjólk.

Eg er nú hræddur um, að svo gæti farið, þótt Akureyri fengi jörðina, að bæjarbúar mundu als ekki fá neitt ódýrari mjólk en áður, gæti jafnvel komið fyrir, að mjólkin yrði dýrari en nú. Nú er mjólkin seld þar á 10—12 aura potturinn, og ætli að einstakir menn mundu selja mjólkina ódýrri, heldur en bændur; það þykir mér ótrúlegt, og frá því sjónarmiði er als ekki ráðlegt að selja Akureyri jörðina. Þá þótti hinum háttv. þm. það einkennilegt, að Hrafnagilshreppur skyldi vera að sporna á móti því, að Akureyri gæti fengið jörð, þar sem hreppurinn hafi nóg land, og muni þetta gert til að drepa málið. Eg skal fræða hinn háttv. þm. á því, að Akureyrarbær hefir ótakmarkað land til ræktunar, svo að þótt Kjarni bættist við mundi hann ekki vera betur settur í því tilliti, því jörðin liggur langt frá kaupstaðnum; en álíti þm., að með því að bjóða 12,000 kr. fyrir jörðina eigi að drepa málið, þá er það sama sem hann vilji hafa af landssjóði 3800 kr., og það væri vel að verið, að skaða hann um þessa upphæð. Þá sagði háttv. sami þm. að verðið, þessi 12000, væri slumpreikningur, en 8200 kr. væri sú virðing, sem fara ætti eftir. En hefir hinn háttv. þm. nokkuð athugað þessar tölur, eða borið þær saman við það, sem jörðin gefur af sér. Eg skal mjög stuttlega leitast við að sýna, að 12,000 kr. er ekki of hátt verð á jörðinni. — Í matsgerðinni er gert, að jörðin gefi árlega af sér 120 hesta af töðu. Ef hver hestur er reiknaður á 4 kr., sem er þó mikils til of lágt, því þar um slóðir er töðuhesturinn varla seldur minna en 6 kr. og jafnvel upp í 8 kr., en eg segi nú 4 kr., þá er taðan 480 kr. virði. Þá er úthey áætlað 600 hestar, og sé hver hestur metinn á 3 kr., sem sömuleiðis er of lágt, þá verða það 1800 kr. Þetta verður samtals 2280 kr. Athugi maður nú vinnukraftinn sem þurft hefir —, þá reikna eg 3 karlmenn og 4 kvenmenn í 10 vikur. Reikna eg karlmann 3,50 kr. á dag — og kvenmann 2,00. — Verða þá vinnulaun til samans 1110 kr. — Með þessum reikningi, sem þó er alt of lágur, verða eftir í hreinan ágóða 1170 kr. en það er sama sem 6% af 19,500 kr., eða c. 4% af 29,200 kr. Undir öllum kringumstæðum ætti því jörðin ekki að vera ofseld á 12,000. Í samanburði við þetta skal þess getið, að maður, sem er mjög kunnugur jörðinni, og hefir vel vit á svoleiðis hlutum, sagði mér, að hann gæti ekki hugsað sér lægra verð fyrir jörðina en 15000 kr. Hér er því farið fram á mjög lágt verð, þótt hún sé seld á 12,000 kr., svo lágt, að það er skaði fyrir landið að selja hana, auk þess sem sennilegt er, að jörðin stígi mjög í verði, er fram líða stundir. —

Komi þangað duglegir bændur, þá er þar ótakmarkað landrými. Akureyri þarf eigi og á ekki að eiga það, því kaupstaðurinn á afarmikið landflæmi, sem hægt er að slétta og rækta. Auk þessarar ákveðnu upphæðar, sem er 19,500 kr., er ótalin hagaganga fyrir þá gripi, sem Akureyri mundi hafa þar, og sem er minst 200 kr. virði árlega. Eg ætla ekki að reikna það hærra en þetta. Af þessu ætti öllum að vera ljóst, að 12000 kr. er það lægsta verð, sem um getur verið að ræða. Eg hefi því leyft mér að koma með þessa upphæð í þeirri von, að háttv. Ed. kynni að vilja fallast á hana. Eg þykist vita, að eigi sé til neins að koma með tillögu um hærra verð. Af því margir af háttv. þm. þekkja lítt til jarðar þessarar, hefi eg reynt að skýra það fyrir þeim alveg hlutdrægnislaust, og reynt að sýna þeim ljóslega fram á, að hér sé farið fram á óhæfu, og komið fram með kröfu, er ómótmælanlega miðar í þá átt að vinna landssjóði tjón. Eg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta, en taka að eins fram. að það er von mín og trú, að háttv. þingm. sjái sig um hönd og skaði ekki vísvitandi landssjóð, með samþ. þessa frumv., heldur annaðhvort fresti málinu til seinni þinga, eða felli það alveg.