17.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

7. mál, háskóli

Kristinn Daníelsson:

Eg get verið fáorður. Flest það, sein eg tók fram áðan, voru smálagfæringar, sem mér eru engin áhugamál, nema ef vera skyldi útlendu nöfnin.

Háttv. framsögum. sagði, að ef nafninu háskólakennari væri haldið, mundi það verða lagt út á dönsku »Højskolelærer«, sem þýddi annað. Til þess liggur það svar, að þá væri rangt lagt út. — Enn fremur sagði hann, að slíkum orðum væri haldið í flestum öðrum málum. Eg kannast við að svo sé, en það er veigalítil ástæða, og lítið á því að byggja. Oft ber það við, að orð með algengri þýðingu koma skyndilega upp í alt annari þýðingu í sumum málum. T. d. má nefna, að orðið minister þýðir nú prestur á ensku. En verði þýðingin frábrugðin, þá er fremur ógagn en gagn að því, að orðmyndin sé sú sama. Hann sagði, að prófessor væri alment haft í daglegu tali; t. d. hefðu menn alt af sagt prófessor Finnur Magnússon. Það sannar ekkert. Við segjum t. d. iðulega justitiarius, assessor o. s. frv., en þó dettur okkur ekki í hug að leiða þessi orð inn í lagamálið, og ekki heldur notum við þau, þegar við skrifum íslenzku.

Háttv. framsögum. ræður mér til að bera mig saman við nefndina til 3. umr. Eg er fús til þess, en álít þess þó ekki þörf. Það nægir að deildin skeri úr nú þegar, hvort hún vill heldur útlendu orðin eða innlendu. Eg skal geta þess, að eg hefi ekkert á móti því, að »dekanus« standi í svigum fyrir aftan íslenzka orðið, eins og er í stjórnarfrumvarpinu. Það er íslenzkaða myndin »dekani«, sem eg get ekki felt mig við, því að með þessari íslenzkun er verið að læða orðinu inn í tunguna. Eg gat, eins og eg mun hafa orðað það áðan, unað við það í krókbekk sviganna; en eg vil ekki leiða það í kór tungunnar.