01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

41. mál, bankavaxtabréf

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg er hæstv. ráðherra fyllilega samdóma í því, að ekki eigi að fella þetta frv. Eg hefi heldur ekki heyrt annað, en að sjálfu frumv. hafi verið vel tekið. Alt öðru máli er að gegna um breyttill.; þær koma fram með alveg nýjan hlut. Auk þess sem bankinn getur selt skuldabréf sín, er ætlast til, að landssjóður útvegi 2 milj. kr. til þess að kaupa bankavaxtabréf eða bankaskuldabréf.

Eg veit nú ekki vel, hvernig hin h. nefnd (meiri hlutinn) hefir hugsað sér þetta, því að engin ákvæði eru um það, hvort bréfin eigi að kaupa af landsbankanum eða ekki. Stjórnin gæti notað þessar 2 milj. kr. til þess að kaupa skuldabréf þau, er Íslandsbanki lægi inni með.

Eg skal nú ekki um það segja, hvort tilgangurinn er að efla Íslandsbanka, en jafnvel þótt bréfin væru keypt af landsbankanum, þá gæti þetta verið mjög viðsjárvert: landssjóður myndi gerast nokkurskonar banki og taka lán, er landsbankinn svo »spekúleraði« með.

Eg mun því greiða atkv. með frv. sjálfu, en ekki með þeim breytingum, er br.till. vilja gera á því.