01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

41. mál, bankavaxtabréf

Magnús Blöndahl:

Eg hafði ekki ætlað mér að tala í þessu máli, en þegar eg heyrði orð hins háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um það, að hann myndi greiða atkvæði með frv. sjálfu en ekki breyt.till., þá fanst mér ástæða til að standa upp.

Það lítur nú ef til vill vel út að segjast muni verða með frumv. — þegar vitneskja er fengin um það, að bréfin, sem um ræðir séu seld; en eg get þó varla skilið, að hinn háttv. þm. hafi hugsað vel þetta mál, því að það væri réttnefndur »leikaraskapur« að fara nú að samþykkja frumv., sem eftir eðli sínu kæmi að engum notum án breyt.till.

Eg þykist þess fullviss, að hinn h. þm. hafi ekki athugað þetta, að hann hafi í rauninni meint betur, en orð hans lágu til. Hinn háttv. þm. (J. Ó.) fann ástæðu til að taka það fram, að með breyt.till. væri ætlast til, að taka til láns aðrar 2 milj. kr. Hvaða aðrar 2 miljónir? Eg vonast nú til, að hinn háttv. þm. geti verið mér sammála um það, að það muni ekki greiða svo ýkja mikið úr hinni brýnu þörf að hjálpa bankanum, þótt bankaskuldabréfin séu seld. Það væri mjög einkennilegt, ef hin háttv. deild feldi frv. þetta, því þá mætti með réttu segja um hana, að hún vildi eingöngu hlynna að öðrum bankanum, og þá máske þeim er síður væri skylt að hlynna að, en gerði hins vegar ekkert fyrir hinn bankann, — landsins eigin banka.

Hinn háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) spurði, hvaða bréf það væru, sem um væri talað, og af hverjum ætti að kaupa þau. Ef hinn h. þm. vill hafa fyrir að bera saman sjálft frv. og br.till., þá hlýtur hann að ganga úr skugga um þetta atriði; það stendur greinilega í 1. gr. frumv. (með br.till), af hverjum skuli kaupa bréfin, nefnilega af landsbankanum. Annað mál er það, ef hinn h. þm. hefði fundið eitthvað að orðalaginu; það hefði vel mátt betur fara, en við síðustu umr. þessa máls var engin vissa fyrir því að bréfin myndu seljast.

Eg vona nú, að háttv. 2. þm. S. Múl. (J. Ó.) geti orðið okkur samdóma, ekki einungis að því er snertir frumv. sjálft, heldur og breyt.till. Og eg vil ekki trúa því fyr en eg verð að taka á því, að háttv. deild, er tók svo vel frumv. um hinn bankann, snúist í móti landsins eigin stofnun.

Eg skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en eg álít þetta mál svo ljóst, einfalt og — gott, að háttv. deild geti ekki kinnroðalaust annað en tekið því vel.