01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

41. mál, bankavaxtabréf

Magnús Blöndahl:

Eg get verið stuttorður, því háttv. framsm. (B. J.) hefir takið flest fram af því, sem eg vildi segja. Það lítur næstum út fyrir, að þeir menn, sem frekast andmæla þessu frumv., geri sér ekki glöggva grein fyrir því, að bankinn skuldar stórfé, bæði hér og erlendis. Ef þessi bréf nú verða seld, gera þau ekki mikið meira en losa bankann við skuldir þær, er hann skuldar í útlöndum.

Síðasti ræðumaður sagðist vera á móti frumv., af því verið væri með því að sökkva landinu í skuldir út á við, og landsmönnum sjálfum inn á við, enda vildi hann ekki stuðla að lántöku erlendis. Eg vildi mega spyrja háttv. 2. þm. Árn. (S. S.): Eru þá engin peningavandræði í landinu? Eða hvar á að fá fé, ef ekki má leita til útlanda? Getur hann vísað á nokkra þá peningalind í landinu sjálfu til að hjálpa fram úr þeim vandræðum? Eg hygg, að sú lind muni ekki vera til. H. þm. (S. S.) er víst fullkunnugt um raddir þær frá þjóðinni, er hvað eftir annað hafa skorað á þingið að ráða fram úr peningavandræðunum. Ekki finst mér heldur gott að samrýma það hjá háttv. þm. (S. S.), að hann vill bíða þangað til hann sér, hvernig fer í Ed. um hitt frumv. Er það af því, að hann vilji sparka í landsins eigin banka, ef þetta frumv. um kaup á hlutabréfum í Íslandsbanka nær fram að ganga? Eg lít svo á þetta mál, að aldrei hafi verið jafn knýjandi ástæður fyrir hendi til þess, að þingið geri alt, er það getur til þess að greiða sem bezt úr hinum fjárhagslegu vandræðum landsmanna og peningastofnananna í landinu. Það er gott að vera tortrygginn og varasamur gagnvart landsstjórn og öðrum, er um fjármál er að ræða, en að ganga jafn langt í því efni og háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) held eg fáir verði til að mæla með, — enda gat háttv. þm. ekki fært minstu ástæðu fyrir þeirri tortryggni sinni.