22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

51. mál, stofnun landsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eins og háttv. deild er kunnugt, var landsbankinn stofnaður með lögum nr. 14, 18. sept. 1885 og hefir því starfað nær fjórðung aldar.

Stjórn þessa banka var þá þannig fyrir komið, að við bankann skyldi vera 1 bankastjóri, og 2 gæzlustjórar, kosnir sinn af hvorri þingdeild. Þá þótti þetta nægilegt til þess að gæta hagsmuna landssjóðs. Má og kannske með sanni segja, að þá hafi þetta verið nóg, þar sem störf bankans voru lítil og veltufé ekki meira en ½ milj. króna. Nú er þessu alt annan veg varið; starfsfé bankans hefir aukist stórkostlega, nemur nú frá 9—10 miljónum, og því miklu meiri þörf á fulltryggjandi fyrirkomulagi í þessa átt, þar sem störfin hafa farið sívaxandi og eru nú margfalt margbrotnari en áður. Eg hygg því, að vel mætti segja, að stjórn þessa banka sé orðin nokkuð úrelt og gamaldags, og þyrfti því endurbótar við, enda tæpast að hún geti fullnægt kröfum nútímans í þeim efnum. Af þessum ástæðum virðist oss — meiri hl. í peningamálanefndinni — að sjálfsagt væri, að tryggja eftirlitið sem allra bezt framvegis, og einmitt þess vegna er þetta frumv. komið fram. Eg þykist mega fullyrða, að þótt öll nefndin hafi ekki skrifað undir þetta frumv., þá sé hún þó sammála í öllum aðalatriðum.

Vér höfum reynt að sníða frumv. þetta eftir kröfum nútíðarinnar, og má í því efni benda á fyrirkomulag slíkra banka annarsstaðar í Skandinavíu og víðar. Í Danmörku t. d. er varla svo smár banki til, að ekki hafi hann að minsta kosti tvo bankastjóra og einn lögfræðilegan ráðunaut. Þar að auki hafa flestir þeirra fjölment bankaráð. Við þjóðbankann danska eru t. d. 5 bankastjórar, við Prívatbankann 4, við Landmandsbankann 4 og 3 bankastjórar við Handelsbankann, o. s. frv. Menn kynnu nú reyndar að segja, að ekki væri rétt að vitna til stórbankanna í þessu efni, en þá vil eg benda á það, að bankar erlendis, sem hafa miklu minna veltufé en þessi okkar banki, hafa þó alt af fleiri en einn bankastjóra, og er það talið afar nauðsynlegt. Eg gæti í því efni bent á Sydsjællands Sparebank, sem hefir 3 bankastjóra, Fyns Diskontobank, Skive Bank o. fl., sem allir hafa að minsta kosti 2 bankastjóra, auk ráðunauta og fjölmenns bankaráðs. Frv. þetta er — hvað fyrirkomulag snertir — sniðið eftir þeim útlendum bönkum, er bezt þykja trygðir. Eg skal taka það fram, að vel getur verið, að frv. þetta þyrfti breytinga í ýmsum atriðum, og mundi nefndin fúslega taka bendingum í þá átt við 2. umr. málsins.

Eg ber það traust til háttv. deildar, að hún lofi frv. þessu að ganga óhindrað til 2. umr. og skal eg svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni.