22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

51. mál, stofnun landsbanka

Hannes Hafstein:

Eg sé ekki betur en að staða þessa svonefnda »ráðunauts«, verði nokkuð einkennileg. Hann á ekki að vera bankamaður, heldur lögfræðingur, og hafa miklu lægri laun, en bankastjórarnir tveir. Þó hefir hann svo mikið vald, samkvæmt 4. gr. að ekki er hægt að skuldbinda bankann, gefa út né framselja víxil, önnur verðbréf eða aðrar skriflegar skuldbindingar, nema þessi ráðunautur samþykki. Það dugar ekki, þó að báðir bankastjórarnir séu á eitt sáttir, ráðunautur þessi hefir eftir þessu fullkomið »veto« gagnvart þeim, og hins vegar getur hann gert hvaða ráðstafanir sem hann vill, ef hann fær annanhvorn bankastjórann með sér. Það er að vísu ekkert á móti því, að einn af bankastjórunum sé yfirbankastjóri (chef) hafi »veto« gagnvart hinum, en að leggja slíkt vald í hendur lögfræðislegs ráðunauts bankastjórnar virðist ekki ná neinni átt.

Eftir því sem mér hefir verið frá skýrt tíðkast það fyrirkomulag við stærstu banka og peningastofnanir á Frakklandi og Englandi og viðar að einn er aðalmaður eða »chef« í bankastjórninni, en hinir bankastjórarnir ráðunautar hans og meðstjórnendur. Sé það því meining frumv. að skifta stjórnarstarfinu jafnt milli tveggja bankastjóra, er hvorugur hafi afgerandi orð, er það að minni hyggju afturför frá því sem nú er. Eg legg því til, að frv. þetta sé að minsta kosti fyrst um sinn lagt á hylluna.