22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

51. mál, stofnun landsbanka

Jón Ólafsson:

Herra forseti. — Þá er byrja skal nýtt fyrirtæki, er sjálfsagt að hugleiða, hvert fyrirkomulag muni vera allra bezt. En er um gamlar stofnanir er að ræða, sem vel hafa reynst og blómgast, þá er jafnsjálfsagt að gera ekki að raunarlausu breytingar frá því sem er, ekki fyrri en reynslan sýnir, að eitthvað sé að, svo að breytinga sé þörf.

Þessa gullnu reglu játa allir hyggnir menn.

En heimfærum hana nú upp á mál það, sem hér liggur fyrir. Landsbankinn hefir nú staðið fjórðung aldar. Hann hefir blómgast vel, grætt fé, gagnað landsmönnum og aldrei beðið nokkurt tjón, sem teljandi sé.

Fyrirkomulag hans hefir reynst vel. Reynsla liðins tíma gefur enga minstu átyllu til þeirra breytinga, sem hér er fram á farið um stjórn bankans.

Bankastjórnin hefir ekki kvartað um, að hún kæmist ekki yfir störfin, og eg vil fullyrða það, að þótt fjármagn bankans yxi að stórum mun, þá aukast ekki störf bankastjórnarinnar að sama skapi.

Eg á eftir enn að heyra nokkrar gildar ástæður fyrir því, að gera stjórn bankans miklu kostnaðarsamari en áður, og bíð eg átekta að fá að heyra þau rök framflutt hér í salnum, því að einhver gild ástæða, sem frá má skýra, hlýtur að hafa komið þessu á stað.