22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

51. mál, stofnun landsbanka

Skúli Thoroddsen:

Eg stend að eins upp til þess að segja fáein orð um málið, sem eg mun styðja með atkvæði mínu, þar sem eg álít það heppilegt. Gæzlustjórar bankans eru, eins og kunnugt er, að eins til viðtals í bankanum eina klukkustund á dag, og er það of stuttur viðtalstími, þar sem afar mörgu er að sinna. Hinn tímann, sem útlán eru veitt, er bankastjórinn einn viðstaddur, og er það alt of lítil trygging fyrir landið, að einn maður sinni jafnvandasömu starfi, sem störf bankastjórnarinnar eru. Laun gæzlustjóranna eru of lág til þess að til meiri starfa sé af þeim að vænta, en nú inna þeir af hendi. Borgun sú, er þeir fá fyrir starfa sinn, er og að eins 750 kr. Ekki er heldur hægt að búast við, að fyrir svo lágt kaup sé jafnan völ manna, sem hafa bankafróðleik, eða eru sérfróðir, að því er til bankastarfa kemur, og því má vænta þess, að meira fjör og líf færist í bankann, ef frumv. verður samþ.. með því fyrirkomulagi, sem þar er gert ráð fyrir, eða að bankinn verði ekki eins staður, eins og verið hefir.

Núverandi bankastjóri er og orðinn háaldraður maður, kominn á áttræðisaldur og er því eðlilegast að breyting þessi komist á sem fyrst, en sé als ekki frestað til næsta þings.

Að lokum vil eg benda á það, að eftirlaunaákvæði frumv. virðast eigi geta náð til núverandi bankastjóra, og þyrfti því að gera breyt.till. við frumv. Í þá átt, að honum yrði einungis veitt sæmileg eftirlaun fái hann lausn frá starfi sínu.