24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

51. mál, stofnun landsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Herra forseti! Eg gat þess við 1. umr. þessa máls með hve miklu vinnufé banki þessi hefði verið stofnaður. Landssjóður lánaði honum ½ miljón króna. Eg mintist einnig á það, að svo hefði verið litið á, að stjórnarfyrirkomulag bankans hefði þá einnig þótt nægilega trygt frá hálfu löggjafarvalds og stjórnar. Eg gat um þetta þá, að svona hefði verið, en eins og allir vita, hefir bankinn tekið stórkostlegum breytingum og framförum í seinni tíð, svo þetta horfir alt öðruvísi við nú, þegar starfsféð er orðið nærfelt 9 milj. kr. og störf bankans hafa aukist og margfaldast að sama skapi. Það sem því fyrir 24 árum gat verið í alla staði fullnægjandi er nú orðið úrelt og því sjálfsagt að breyta. Stjórn þessa banka þarf að koma þannig fyrir nú þegar, að engin ástæða sé fyrir neinn að láta þau ummæli heyrast eptir sér, að þessi stofnun, sem er eign landsins og landsstjórnin ber ábyrgð á, sé ekki fulltryggilega fyrir komið. Þetta frumv., sem hér liggur fyrir, fer í þá átt; raunar var því fundið ýmislegt til foráttu um daginn, einkum í einstökum atriðum þess; þess vegna hefir nefndin leyft sér að koma með ýmsar breyt.till. til bóta við frumv. Þannig leggjum vér til, að 4. gr. orðist öðruvísi og sömuleiðis kveðum vér nánar á um afstöðu ráðunautsins gagnvart bankastjórunum og væntum það geti ekki valdið neinum misskilningi, eins og það nú er í orðað.

Þá kemur breyt.till. við 5. gr., að í staðinn fyrir ? komi ?. Höfum vér breytt þessu sérstaklega vegna þess, að féhirðir gat ella verið kominn upp í hámark launanna á miðju ári, en hann getur kallast burt eins og hver annar, og þá er ekkert upp á að hlaupa fyrir eftirmann hans. Þá koma hinar aðrar breytingar við 5. gr. Vona eg, að þeir sem áður hafa látið óánægju sína í ljósi verði nú ánægðir með þessar breytingar. Það kom ljóst fram um daginn, að með þeim ákvæðum, sem notuð voru um laun bankastjórans gætu þau farið upp úr öllu hófi, en með þessu ákvæði, sem hér er sett inn í 5. gr. er því slegið föstu, að þau eigi geti farið fram úr 6500 kr. Þá kemur viðaukatill. um að bæta aftan við 5. gr. ákvæði um eftirlaun hins núverandi bankastjóra, að þau skuli vera 3000 kr. Maður þessi, sem hér er um að ræða, er víst af flestum talinn þess verður, að honum sé sómi sýndur, ef hann lætur af störfum í landsins þarfir. — Hann hefir, sem kunnugt er, mikið af æfi sinni slitið sér út í þjónustu landsins, og vænti eg því að engin landsmanna telji eftir honum eftirlaun þau, er honum kynnu að verða ætluð.

Sökum þess, hve orðið er áliðið, vil eg eigi fjölyrða meira um þetta að sinni, en vona, að háttv. þm. leyfi frumv. þessu að ganga gegnum deildina og samþykki það. Eg verð þó áður en eg lýk máli mínu, að geta þess, sem mér láðist, viðvíkjandi br.till. um að fella burtu síðustu málsgr. 5. gr., (á þingskj. 584), að eg þykist vel skilja, hvers vegna þessi br.till. er fram komin. Mun höfundur hennar bera hana fram til þess að koma í veg fyrir að bankastjórinn fengi nokkur eftirlaun. Vil eg eigi fara frekar út í þetta að sinni, en vona að háttv. deild felli þessa br.till. og lofi máli þessu að ganga til 3. umr.