24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

51. mál, stofnun landsbanka

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það var eiginlega ræða 2. þm. Árn. (S. S.), sem kom mér til að standa upp, eða það í henni, þar sem hann talaði um eftirlaunin. Eg sannfærðist af þeim ummælum um það, að hinn háttv. þm. er ekki innvígður í »insta hringnum« í sínum flokki, svo að honum er ókunnugt um það, sem fram fer þar bak við tjöldin. Annars hefði hann sjálfsagt eigi haldið þessa ræðu, því að þetta frumv. er eingöngu búið til vegna eftirlaunanna. Eg veit að háttv. meiri hluti viðurkennir ekki síður en vér hinir og allir skynbærir menn, að þegar um gamla rótgróna stofnun er að ræða, þá er vel hefir blómgast, þá er það gullin regla, að hagga ekki fyrirkomulagi hennar eða breyta, nema að svo miklu leyti og þá fyrst, er reynslan hefir sýnt, að fyrirkomulaginu sé í einhverju áfátt. Landsbankinn hefir staðið síðan 1885. Hann hefir blómgast ágætlega, grætt stórfé á hverju ári, safnað álitlegum viðlagasjóði og aldrei beðið neitt tjón sem teljandi sé, eða vert er að nefna. Ástæðan til þeirra breytinga, sem nú er farið fram á, liggur því als ekki í ásigkomulagi stofnunarinnar sjálfrar; reynslan hefir ekkert tilefni til þeirra gefið. Ástæðan liggur alt annarstaðar, og eg sé ekki að eg rjúfi neitt leyndarmál með því að nefna hana, því að allir hér inni vita, hver hún er. Ástæðan er sú ein, að það verður að búa til hálaunað starf til að verðlauna verðleika eins mikilmennis þessa lands. Maðurinn er háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), sem á að verða bankastjóri. (Magnús Blöndahl: Hvernig veit þm. það?) Eitt af flokksblöðum meiri hlutans varð svo opinskátt í vetur að gloppa þessu út úr sér. (Magnús Blöndahl: Eg man eigi til að eg hafi lesið það í blöðum nema ef vera skyldi í »Reykjavíkinni«). Ónei! það getur vel verið; það stóð nefnilega bara í »Fjallkonunni«, sem fáir lesa. En eitt ráð vildi eg gefa vorri nýju stjórn, og það er, að áður en hún útnefnir mann þennan til bankastjóra, þá sendi hún hann í nokkra tíma til mín (eg skal ekkert fyrir það taka) svo að hann geti lært hjá mér, hvað forgangshlutabréf og önnur fleiri algeng viðskiftaorð þýða, sem miklu viðkunnanlegra er að bankastjóri skilji. Það er óviðkunnanlegt, að hann þurfi oft að verða sér til minkunar fyrir vanþekkingu á slíku, eins og hann hefir orðið hér í deildinni í dag og í fyrradag. Eg veit, að hinn háttv. þm. muni taka þessari fræðslu af minni hendi feginsamlega, því þó að hann legði ekki mikið upp úr orðum mínum í dag hér í deildinni, þá hefir hann þó áður verið þakklátur lærisveinn minn, því að það fyrsta sem hann gerði, þegar Gullbringumenn og Kjósaringar höfðu rifið hann upp úr svelli og sent á þing, var að leita til mín, og fá hjá mér kenslustundir eina og tvær á dag í heilan vetur til að reyna að læra að verða þingmaður. Og þó að eg hvorki hafi haft ánægju eða sóma af lærisveini mínum, verð eg þó að játa, að hann sýndi alla viðleitni til að læra; en eg verð að ætla, að það hafi ekki verið kenslunni, heldur gáfnafari þm. að kenna, hve lítinn ávöxt hún bar. En þá er nú á að líta, hverjir eru þeir verðleikar þessa þm., sem á að verðlauna með frv. þessu? Eru það þingmannsafrek hans? Ekki getur það verið, því að allir vita, að aldrei hefir orð af viti komið úr þeim belg, nema þá að því hafi áður verið í hann spýtt, af honum skynugri mönnum. Ef litið í er yfir þingferil hans, þá liggur ekkert nýtilegt starf eftir hann hér á þingi; ekkert framfaramál, sem nokkru máli skiftir, er kent við hans nafn — utan eitt. Það er eitt mál, sem hann bar hér fram á þingi og framfaramál má heita, og gekk það síðar fram á þingi og varð að lögum, og á því máli hefir hann lifað síðan sem þingmaður. Þetta mál er frumv. um heimuglegar kosningar til alþingis, og hefir hann talið það sitt verk. En hvert orð, hverja setning, hverja hugsun í því frumvarpi samdi eg fyrir hann, og ekki að eins samdi, heldur og skrifaði, svo að þm. hafði ei annað fyrir því, en að kaupa mann út í bæ til að afskrifa það, svo að hönd mín skyldi eigi þekkjast í prentsmiðjunni. Þetta er alt sannanlegt og vottanlegt.

Svo vildi þm. prenta þetta frumv. í tímariti Bókmentafélagsins og láta því fylgja ritgerð til að rökstyðja það. Þá ritgerð samdi eg fyrir hann, og hafði hann ekki einu sinni fyrir því að láta afskrifa hana, en bað mig að eins að setja undir hana »Alþingismaður«, því að það var hann þá, en eg ekki. Eg veit ekki einu sinni, hvort hann hefir lesið hana fyr en hann sá hana á prenti. Með þessum lánsfjöðrum flaug hann í þessu máli. Þegar eg nú hefi skýrt frá þessu, vona eg að þingdeildin sjái, að það eru ekki þingmenskuhæfileikar hans, sem ástæða er til að verðlauna, því að annað gagnsamlegt en þetta liggur ekki eftir manninn. Hann er jafn fánýtur þm. og hann er óhæfilegur til bankastjóra, því að til þeirra starfa skortir hann hvern einasta hæfileika; en fyrir hvað á þá að verðlauna þessu afarmenni?

Sannmælis vil eg unna honum, og verð að játa að í einu hefir hann verið nýtur maður: Hann hefir verið nýtur flokksmaður. Ekki í þeim skilningi þó, að hann hafi nokkurn tíma lagt nokkurn andlegan skerf til þarfa flokks síns, en hann á stóra peningabuddu, og hefir opnað hana örlátlega til flokksþarfa. Þetta er það, sem hér á að fara að verðlauna. Eg legg áherzlu á það, að með þessu frumv. er farið að innleiða nýja frumreglu í löggjöf landsins, þá frumreglu, að hver sá flokkur, sem ofan á verður við kosningar til alþingis, skuli nota atkvæðamagn sitt á þingi til þess að láta landssjóð endurgjalda sér kostnaðinn, sem hann hefir haft við kosningarnar. En eins og eg hefi áður ávikið, og eins og allir vita, sem manninn þekkja, þá er hann gersamlega óhæfilegur til að vinna nokkuð starf í bankans þarfir, ekki einu sinni að skrifa einfalt sendibréf. Hann verður þar til einskis nýtilegs notaður nema til að hirða bankastjóralaunin, og hve nær sem sú stjórn kemur aftur að völdum, sem lítur á hag bankans og þarfir hans, en ekki á launaþörf þessa manns, þá getur hún ekkert annað við hann gert, en að víkja honum þegar í stað frá störfunum. Og vonandi verður þess tíma ekki alt of langt að bíða. En þá koma sér vel eftirlaunin, og nú vona eg, að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) og öllum öðrum sé það ljóst, að þetta frv. er einkum og aðallega orðið til vegna eftirlaunanna.