24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

51. mál, stofnun landsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eg get ekki látið þau ummæli háttv. þm. Vestm. (J. M.) mótmælalaus, að ekki liggi á að koma á þessum breytingum. Hann benti á, að þetta væri hlutverk milliþinganefndar, en hinn háttv. þm. verður nú að fyrirgefa, þótt ekki séu allir þar sömu skoðunar og hann; enda veit eg að hann gerir það, hann er svo sanngjarn maður.

Eg þóttist rökstyðja með skýrum orðum í fyrri ræðum mínum um þetta mál, að ekki væri rétt að fresta breytingu þeirri á stjórn bankans, eins og hér er til ætlast, og mintist þá einnig á væntanlegt hlutverk milliþinganefndarinnar, og læt mér því nægja að vísa til þess.

Sami h. þm. (J. M.) tók það einnig fram, að bankinn hefði blómgast á þessu tímabili og hefði gert eins mikið gagn og heimtað yrði. Mér dettur ekki í hug að mótmæla þessu, það er langt í frá; enda hefir ekkert mér vitanlega gefið tilefni til þessara ummæla hins háttv. þm. Eg veit ekki til þess, að nokkur hafi borið brigður á þetta.

Það gladdi mig sannarlega, er hinn háttv. þm. Vestm. (J. M.) játaði, að töluverð bót væri að breyt.till. Þó skildi hann ekki, hvers vegna ein lína í 4. gr. var með breyttu letri. Eg skal geta þess, að þetta stafar að eins af athugaleysi í prentsmiðjunni, er mætti laga við 3. umr.

Þá virtist hinn háttv. þm. ekki skilja launaupphæð bankastjórans, hvernig henni væri háttað. Þessu þarf eg að vísu ekki að svara; eg gat þess við 1. umr. þessa máls, að það væri girt fyrir, að launin yrðu hærri en þetta.

Reyndar skal eg játa, að þetta ákvæði mætti orða enn þá skýrara, og eg efast ekki um, að háttv. þm. Vestm. (J. M.) ljái þar til lið sitt og hjálpi til að gera ákvæðið svo úr garði, að það geti engum misskilningi valdið. Eg treysti honum vel til að semja slíka breyt.till., jafnvel þótt hann vilji ekki bera hana fram.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) gat þess, að þessi starfi væri svo vel launaður, að óþarft væri að ætlast til eftirlauna. Þetta er þó ekki als kostar rétt, því að þeir sem til þekkja játa, að þótt farið sé fram á alt að 6500 kr., þá er það ekki gífurleg upphæð fyrir slíkan starfa.

Menn hljóta líka að sjá það, að það væri mjög skaðlegt, að nema þessi laun svo mjög við nögl sér, ef góður maður væri í boði; það mundi verða til þess, að ekki fengist hæfur maður í þessa stöðu stundinni lengur. En staðan er ábyrgðarmikil, eins og öllum mun ljóst, og sízt mundi það mega teljast með sparnaði að setja launin svo lág, að vel hæfir menn vildu ekki keppa um hana.

Það stendur heldur ekki að veita skuli þessi umtöluðu eftirlaun, heldur er að eins heimild gefin til þess, ef bankastjórnin ræður til þess.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) fann ástæðu til að standa upp áðan, en eg gat nú ekki tekið sumt af orðum hans öðruvísi en þau væru í spaugi töluð, fremur en í alvöru; reyndar mætti segja, að slíkt spaug væri helzt til óþinglegt, og sómdi sér ekki á alþingi Íslendinga. Eg skal þó ekki blanda mér inn í harðyrði þau, er þingm. lét falla í garð 1. þm. G.-K. (B. K.), Eg veit hann muni svara fyrir sig ef hann álítur þess þörf.

Sama háttv. þm. (J. Ó.) fórust orð á þá leið, hvort 2. þm. Árn. (S. S.) vissi ekki, að frumv. væri tilorðið eingöngu vegna eftirlaunanna. Hefir hinn háttv. þm. nokkra ástæðu til að kasta slíku fram? Nei, þetta eru alveg óforsvaranleg orð. Og hverju mundi hinn háttv. þm. svara, ef því væri dróttað að honum, að það væri af eigingjörnum hvötum og ekki öðru, ef hann gengist fyrir einhverju því fyrirtæki, er fjárframlag þyrfti til? Eða hann fengi bitling eða launaða stöðu. Þessi ummæli hins háttv. þm. stafa ef til vill af því, að honum hefir einmitt verið svo oft borið slíkt á brýn sjálfum, hvort sem það hefir nú verið að verðleikum eða ekki — það skal eg láta ósagt. (Jón Ólafsson: Það hefi eg aldrei heyrt). Ef hinn háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir ekki heyrt það, þá hafa þó margir aðrir heyrt það. Það fer því ekki vel á því, að hann geri mönnum slíkar getsakir; það hefði farið betur á því, að þær hefðu komið úr annari átt.

Þá sagði þessi margnefndi háttv. þm. (J. Ó.), að það væri als ekki sannað, að ekki væri þörf á breytingum (á lögum bankans). En í sömu andránni segir hann: »Það er engin þörf á breytingum á meðan alt gengur vel«. Hann hafði tekið upp það, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði, að bankinn hefði blómgast vel undir núverandi stjórn.

Eg skal nú leyfa mér að endurtaka það, sem eg svaraði áðan orðum hins háttv. þm. Vestm. (J. M.):

Eg veit ekki til, að nokkur maður hafi minst á þetta atriði, það hefir víst enginn efast um, að alt hafi gengið vel.

En er það þá meining hins háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) að tryggja þá fyrst stjórn þessarar stofnunar, þegar í óefni er komið?

Það líkist ekki þeim fjármálagarpi, er hinn háttv. þm. eflaust þykist vera, að vilja ekki ráða bót á hlutunum, fyr en í óefni er komið (Jón Ólafsson: Það má nú fyr gera það, en í óefni er komið), eða byrgja ekki brunninn, fyr en barnið er dottið ofan í hann.

Það eru óviðurkvæmileg orð hjá h. háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), sem hann talaði í garð eins þingdm., sem fjarstaddur var. Hann hefði að minsta kosti getað óskað þess, að hann kæmi inn. Hann kvaðst hafa séð í blaði að sá háttv. þm. ætti að verða bankastjóri. Eg heyri það nú í fyrsta sinn. (Jón Ólafsson: Það er í »Fjallkonunni«). Eg minnist ekki að hafa lesið það í »Fjallkonunni«. En þegar eg gæti betur að, held eg að eitthvað hafi verið sagt í þessa átt í einu alþektu sorpblaði hér í Reykjavík, en það blað lesa í víst fáir eða taka trúanlegt sem í því stendur. Og eg vil minna jafnfróðan mann um blaðaútgáfu, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) er, á það, að hann má bezt vita sjálfur, að ekki er alt sannleikur, sem í blöðunum stendur. Eg skal ekki fara lengra út í það, en er þess þó albúinn, ef þm. óskar. Eg skal þó geta þess, að í »Lögréttu«, sem eg annars les þó ekki, en sá hér í þingsalnum, stendur það, að háttv. þm. Dal. (B. J.) eigi að verða verzlunarráðunautur í útlöndum. Eg hafði nú búist við, að ritstjórn þess blaðs væri vandari að virðingu sinni en svo, að hún léti blaðið hlaupa með jafnstaðlaust fleipur; get því hugsað mér að þetta — eins og svo margt fleira — hafi komist í blaðið án vitundar og vilja ritnefndarinnar, því ef svo væri ekki, mætti hún bera kinnroða fyrir.

Eg endurtek það af nýju, að jafn ástæðulaus ummæli, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) viðhafði í garð fjarverandi þingdm.. eru vægast töluð óforsvaranleg. Ef hann vill koma frumv. á kné, þá vinnur hann ekki á með slíku. Til þess þarf hann að færa veigameiri ástæður.

Eg skal ekki orðlengja frekar um þetta að svo stöddu, en ef háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) stendur upp aftur, er eg albúinn að herða betur að náragjörðinni.