26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

51. mál, stofnun landsbanka

Einar Jónsson:

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) er reyndur að ósanngirni og ósvífni í svörum sínum og framkomu. Hann er vanur að standa upp og þvaðra og tyggja upp það sem er áður búið að marghrekja og sundurtæta og því furðaði mig ekki á þeim ruddalegu ummælum, er hann viðhafði um mig í síðustu ræðu sinni. Slíkt lýsti greinilega hans alkunna sjálfsáliti, sem honum er svo einkar ljúft að útdeila meðal manna. Annars er mér ánægja að heyra það sem háttv. þm. hefir sagt, en ekkert -er nýtilegt í því eða svaravert í raun og veru. Hann hafði engar röksemdir við að styðjast og lýsti því yfir, meðal annars, að ekki væri hægt að hrekja neitt af því, er eg hefði sagt. Meginregla hans er einkis virði. Hann barmaði sér yfir því að þingið ætti eigi marga slíka snillinga eins og mig, og lét í ljósi þá innilegu ósk sína, að úr þeirri vöntun bættist. Auðvitað átti þetta að heita háð. En eg get þá svarað honum því, að hvað sem þessum fleipursummælum hans líður, þá er eg þó allajafna eins mikill snillingur og hann og þó miklu framar. Hann fjargviðraðist yfir því, hvað eg slægi um mig, en þó slæ eg ekki höndunum út í loftið, eins og hann, og hristist ekki eða titra frá hvirfli og alt til ilja eins og hann og ekki legg eg heldur áherzluhnykk á rammöfugar samstöfur, eins og hans vani er að gera. Hann sagði, að eg vildi segja sem allra mest, en segði þegar til kæmi tóma vitleysu. Hér hjó spekingurinn of nærri sjálfum sér, og vil eg bera undir dómgreinda menn deildarinnar, hvort þeir kannast ekki við slíkt í ræðum háttv. þm. Eg slæ ekki í kringum mig með eintómum hroka og sjálfsáliti. En eg get ekki annað en tekið það fram, að meiri hlutinn breytir illa og heimskulega í þessu máli. Eg fer svo af þessu þingi, að eg get ekki annað sagt en að háttv. meiri hluti sé mjög óframsýnn og óhagsýnn í fjármálum, að hann skorti bæði þekkingu og vit í þeim efnum, til þess að vera leiðandi flokkur þjóðarinnar. Eg hygg nú helzt að framkvæmdarstjóri trésmíðaverksmiðjunnar Völundur geti ekki verið neinn sérlegur fjármálamaður, eftir því að dæma hvernig þeirri stofnun vegnar. En allir vita, að Völundur er á hausnum. Það er blygðunarleysi að vera að stofna nýtt embætti í þessu skyni. Bankinn er uppausinn og peningalega á hausnum og því sízt þörf á nýjum, dýrum starfsmönnum. Peningar bankans eru í hrúgum í húsum hér í Reykjavík og glingri í búðargluggum, er ekkert gefa af sér, nema augnagaman um stundarsakir. Þess vegna ætti öllum að vera ljóst, að sízt af öllu má auka kostnaðinn við þessa stofnun með óþarfa embættum. Ef nýi bankastjórinn kæmi með peninga, sem dálitlu næmi til að auka »drift« bankans, mundi eg þá fyrir mitt leyti verða hæst ánægður með hann. En því mun ekki vera þannig varið; nýi bankastjórinn kemur sjálfsagt þangað tómhentur, en mun svo loðna þar um lófana á hinum afargóðu launum. Þessi embættisstofnun auglýsir það, að fjármálaþekkingu vantar hjá meiri hluta hins núverandi alþingis. En það er von mín og ósk, að hann fái ekki að rusla í fjárkistu landsins til eilífðar.