20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

7. mál, háskóli

Sigurður Stefánsson :

Mér finst mér vera skylt að gera nokkra grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. Eg hefi greitt atkv. með öllum greinum frumv., af því að mér hefir ekki þótt ástæða til að vera á móti neinni sérstakri grein og er málinu hlyntur yfir höfuð. En mér þykir sá höfuðgalli á, að hér er verið að samþykkja lög, sem verða dauður bókstafur um óákveðinn tíma. Það kann eg ekki við um mál, sem öllum er þó í raun og veru ant um. En hver er ástæðan fyrir því, að lögin eiga ekki að koma í gildi fyr en einhvern tíma í framtíðinni, þ. e. verða dauður bókstafur um óákveðinn tíma? Engin önnur en sú, að vér þykjumst ekki hafa efni á að stofna háskóla nú sem stendur. En úr því svo er, þá sé eg ekki, hvað er unnið við að samþykkja frumvarpið nú. Mér finst það vera dálítið fordildarlegt, að vera að samþykkja lagabálk, sem allir vita að verða ekki lög nema á pappírnum. Hitt er annað mál, að málið getur grætt við það að verða rætt rækilega í báðum deildum; verður þá betur undirbúið undir seinni tíma.

Eg hefi ekki von um að fjárhagur landsins verði betri þegar næsta alþingi verður háð en hann nú er. Fjárhagshorfurnar eru svo slæmar, að það er mörgum áhyggjuefni. Og því finst mér mjög varhugavert að taka fram fyrir hendurnar á næsta þingi. En það gerum við að nokkru leyti, ef við nú samþykkjum þetta frumv., því að þá verður það talin skylda næsta þings, að láta hugmyndina ekki verða »blóðlausa hugmynd« lengur.

Háttv. framsögum. líkti háskóla við hjarta mannsins, þannig, að hann veiti mentunarstraumunum til alls þjóðfélagsins, eins og hjartað knýr blóðið til allra hluta líkamans. Þetta er fögur samlíking, en hún á ekki við, ef háskólahugmyndin verður ekki annað en »blóðlaus hugmynd«. Háskólinn þarf peninga til þess að geta starfað, og peningarnir eru ekki til.

Eg vil því láta málið bíða þangað til vér getum gert háskóla svo úr garði, að hann verði meira en nafnið tómt. — Það hefir verið talað um að það mætti notast við efri bygð latínuskólans til íbúðar fyrir háskólann. Það væri tilraun, sem ekkert er að vita hvernig heppnast. Og eg þykist viss um, að eftir 2—3 ár mundi verða talið öldungis óhjákvæmilegt að byggja háskólahús.

Þingið vinnur málinu ekkert gagn með því að samþykkja frumv. þetta nú. Hugmyndin verður blóðlaus eftir sem áður og færist ekki framkvæmdum nær. Af þessum ástæðum mun eg ekki greiða atkv. með frumv. nú fremur en við 1. umr.