05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

50. mál, kirknafé

Flutningsmaður (Stefán Stefánsson):

Þetta frumv. miðar að því, að verða við eðlilegum og sanngjörnum kröfum safnaðanna, þeim sem sé, að fé kirkna megi ávaxtast í sjóðum, sem hærri vöxtu gefa en hinn almenni kirkjusjóður. Nú er ekki heimilt að ávaxta fé kirkna annarstaðar en í hinum almenna kirkjusjóði, og virðist það mjög svo ófrjálslegt að neyða söfnuðina til þess að nota þann sjóð, þótt völ sé á jafntryggum sjóðum, sem gefa þó töluvert hærri vöxtu. Það var nokkuru öðru máli að gegna, þegar þau lög urðu til, um hinn almenna kirkjusjóð. Þá voru óvíða sparisjóðir í sveitum, en nú síðustu ár hefir talsvert mikið verið gert að því að koma þeim á stofn, og er þá óneitanlega hart og óeðlilegt, að söfnuðirnir megi ekki láta fé kirkna sinna í sína eigin sjóði, þar sem þeir þó eru til hagsmuna sveitamönnum. Auk þess skal eg benda á það, að í frumv. er tekið fram, að eftirlitið sé hjá viðkomandi prófasti og héraðsfundi, sem eg verð að álíta, að gefi næga trygging fyrir því, að fé kirkna sé lánað út með allri gætni.

Eg ímynda mér, að háttv. þingdm. sjái, að þetta er eðlileg og sanngjörn krafa frá hendi safnaðanna, og mundi því þessi breyting stuðla að góðri samvinnu milli safnaðanna og kirkjustjórnarinnar. Aftur á móti hygg eg, að það mundi fremur veikja samvinnuna, ef frumv. næði ekki fram að ganga, og kirknafjárins krafist til þess að leggjast inn í hinn almenna kirknasjóð, hversu mikið tap sem það getur orðið fyrir fjárhag hinna einstöku kirkna og jafnvel tilfinnanlegt óhagræði fyrir söfnuðina, sem þó verða að sjá um kirkjuna að öllu leyti. Eg geri ekki ráð fyrir því, að kirknafé væri lagt á sparisjóði annarstaðar en innan sveitarfélaganna sjálfra; þar sem enginn sparisjóður er, mundi það verða lagt í hinn almenna kirknasjóð. Í mínu kjördæmi stendur nokkuð sérstaklega á í þessu efni. Þar hafa þrír söfnuðir tekið að sér umsjón og fjárhald sinna kirkna og álagsfúlga verið greidd til tveggja safnaðanna — einn ekki fengið féð, þótt hann hafi hvað eftir annan óskað að ávaxta það í sparisjóði sveitarinnar — en nú er gengið eftir fénu, til þess að leggja það inn í »hinn almenna kirkjusjóð«. Eg þykist ekki þurfa að skýra háttv. þingdm. frá, hvernig söfnuðirnir una þessu boði kirkjustjórnarinnar, þar sem féð er nú í tryggum útlánum, og engu er hægt um að þoka með peningagreiðslur. Enn er þess að gæta, að annar söfnuðurinn tók við kirkjunni að eins með því skilyrði, að álagsupphæðin 4000 kr. yrði lögð í sparisjóð sveitarinnar.

Eg þykist því ekki þurfa að tala frekara um málið að þessu sinni, en óska, að 3 manna nefnd verði skipuð til að athuga það nánara að lokinni þessari umr., og því vísað til 2. umr.