05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

50. mál, kirknafé

Flutningsmaður (Stefán Stefánsson):

Háttv. 3 þm. hafa lagt allmikið kapp á, að fella frv. þetta, og segja það ekki þess vert að vera athugað í nefnd. Svona mikið tillit vilja þeir taka til þeirra óska, er bændur bera fram á þingmálafundum, og fela fulltrúum sínum að flytja á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Það er þó þessum háttv. þm vitanlegt, að sá sparisjóður er háttv. umboðsmaður ráðh. minntist á er einn með tryggustu sparisjóðum í sveitum, svo að hér er ekki um neina fjárhagslega áhættu að ræða, heldur að eins eðlilega ósk viðkomandi safnaðar, eða geta menn ekki fundið, hvað þetta er sanngjörn krafa, þegar söfnuðirnir hafa tekið við umsjón og fjárhaldi kirknanna, tekið þær til eignar og umráða, að þeir þá verði ófúsir á, að senda sjóði þeirra og árlegar tekjur í hinn almenna kirkjusjóð, sem bæði gefur lægri vexti en þeirra eigin sparisjóðir, og sem þeir hafa engin not af að öðru leyti.

Menn telja hinum almenna kirkjusjóði það til gildis, að hann veiti lán öllum kirkjum landsins, er þess þurfa.

En eg get ekki séð, þótt sú breyting yrði gerð, sem frumv. fer fram á, að sá almenni kirkjusjóður yrði fyrir svo mjög tilfinnanlegum fémissi, að hann ekki gæti samt sem áður lánað fátækum kirkjum til að byggjast upp, og eg get ætlað, að þeir söfnuðir, sem tækju við sjóði sinnar kirkju reyndu að sjá svo um, að þeir ekki þyrftu að leita til hins almenna kirkjusjóðs, þótt aðgerð eða bygging þyrfti að fara fram á kirkju þeirra.

Og eg vil ennfremur biðja menn að athuga, hvort svona löguð — mér liggur við að segja — meinbægni, að neita söfnuðum um fult og óskert fjárhald kirkju sinnar, því hún er sannarlega þeirra eign, muni vera í góðu samræmi við venjulegar frelsiskröfur nútímans.

Annars er mér óskiljanlegt, hvernig á því hefir staðið að fé þessara kirkna — Möðruvallaklausturs og Munkaþverár — sem hér er aðallega um að ræða, skyldi vera sent héðan úr Reykjavík og norður í land til safnaðanna hafi svo verið til ætlast, að það skyldi sent aftur hér til Reykjavíkur í hinn almenna kirkjusjóð; slíkur riddaragangur er hreint og beint hlægilegur.