05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

50. mál, kirknafé

Hálfdan Guðjónsson:

Það er misskilningur hjá hinum háttv. flutnm. (St. St.) að fé úr kirkjusjóði sé lánað gegn svo lítilli tryggingu, að það tapist stundum hjá kirkjunum.

Eg hygg að mér sé óhætt að fullyrða, að aldrei sé lánað úr þeim sjóði nema gegn fullri tryggingu í eignum kirknanna, og þegar prestar hafa tekið lán til að byggja kirkjur, þá hefir það oft verið, að tekjur kirkjunnar hafa ekki þótt nægilegt veð fyrir láninu. Hafa þeir þá að auki orðið að setja veð í tekjum prestakallanna og þannig rýrt tekjur sínar að mun. Hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði að ekki mundi vera erfitt að hafa eftirlit, því menn mundu vera varfærnir; eg er þó viss um það, að slíkt eftirlit sem með þyrfti gæti vakið talsverða óánægju, og verði frv. samþykt, þá dregur það þann dilk á eftir sér, að endalaust hringl kemst á kirkjuféð — menn hendast með það úr einum sjóðnum í annan, eftir því hvar vextir eru hæstir í það og það sinn. Um kirkjusjóðinn getur ekki verið að tala lengur.