26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

50. mál, kirknafé

Flutningsmaður (Stefán Stefánsson):

Það er ekki nema eðlilegt, að háttv. þm. Vestm. (J. M.) taki svari stjórnarinnar og biskupsins, sérstaklega stjórnarinnar, þar sem hann áður var henni svo nákominn.

En mér þykir undarlegt, ef hinn háttv. þm. Vestm. (J. M.) getur ekki skilið jafn-auðvelt mál og þetta, er hér liggur fyrir, ef hann á annað borð trúir því, sem eg hefi sagt um gang þessa máls. Honum finst það óviðkunnanlegt, er eg sagði, að hér væri verið að svíkjast að áðurgreindum söfnuði. Eg hygg, að háttv. þingdeildarmenn hafi nú fengið þá skýringu á þessu máli, að mér sé óhætt að bera það undir dómgreind þeirra; eg vona, að þeir verði mér nokkurn veginn samdóma í þessu atriði. Hér er verið að taka fé af söfnuðinum, sem búið var að afhenda honum eftir ákveðnu skilyrði. (Jón Magnússon: Neitar þm. því, að ekki hafi verið sett sérstakt skilyrði?). Nei, þvert á móti; það er einmitt það, sem eg hefi marg-tekið fram, að söfnuðurinn hafi sett beint skilyrði, og að því skilyrði hafi verið gengið af hálfu hins opinbera. Eða hvers vegna var féð sent norður í Eyjafjörð, ef það átti að leggjast í hinn almenna kirkjusjóð? Um það verður háttv. þm. Vestm. (.J. M.) að gefa mér fullnægjandi svar. Nei, það eru fullar líkur til þess, að stjórninni hafi verið kunnugt um kröfur safnaðarins, hvort sem þær voru nú formlega henni tilkyntar eða ekki — um það skal eg ekki segja. Það atriði liggur algerlega utan við ábyrgð safnaðarins. En framkvæmd stjórnarinnar í fyrstu sýnir, að henni hefir verið full kunnug sú krafa safnaðarins, að álag kirkjunnar skyldi afhent í hans hendur. — Það er ekki líklegt, að peningarnir hefðu verið sendir þessa leið, ef þeir hefðu átt að lenda í hinum almenna kirkjusjóði og ávaxtast þar. Það er mjög langt frá því, að eg hafi viljað koma fram með neinar ákúrur til núverandi biskups eða fyrverandi stjórnar, slíkt hefir mér ekki komið til hugar, enda er það nú fyrst að þetta er heimtað. Biskupinn, sem nú krefst þess, að féð leggist í hinn almenna kirkjusjóð, hefir að öllum líkindum ekki vitað um þetta skilyrði eða ekki athugað það nógu rækilega hvað það hlýtur að álítast bindandi, og vil eg því á engan hátt ámæla honum í þessu efni.

En eg álít, að háttv. þingd.menn verði að sjá, hvað sanngjarnt sé í þessu máli, sjái hve frámunalega, að hér er verið að ganga á gerðan samning.