30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

53. mál, sóknargjöld

Framsögumaður (Ólafur Briem):

Aðalefni frumv. þessa er það, að hin árlegu gjöld til prests og kirkju verði færð saman í eitt persónugjald, sem nemi 1 kr. 50 au. til prests og 75 aurum til kirkju fyrir hvern mann, 15 ára eða eldri.

Eg skal ekki fara mörgum orðum um aðalefni frumv., með því að það er samhljóða frumv. frá milliþinganefnd þeirri, er hefir íhugað skattamál landsins og hefir það legið fyrir þinginu ásamt athugasemdum; það hefir verið íhugað í Ed. og liggur nú fyrir nefndarálit þaðan.

Eg skal játa, að persónugjald gæti verið þungbært, þar sem það kemur jafnt niður á ríkum og fátækum, ef um svo hátt gjald væri að ræða, að það misbyði gjaldþoli hinna fátæku.

En hér er því ekki til að dreifa, þar sem prestsgjöldin eru ekki hærri en 1,50 og kirkjugjöldin 0,75.

Hins vegar á slíkt persónugjald hvergi betur við en hér, ef á annað borð verður lagður skattur jafnt á alla.

Viðvíkjandi breytingum þeim, sem nefndin hefir leyft sér að koma fram með (á þskj. 594) skal eg geta þess, að 3. breyt.till lýtur að því, að ef hið lögskipaða kirkjugjald með hækkun þeirri, er sóknarnefnd hefir ákveðið, og safnaðarfundur og héraðsfundur hefir samþykt, nægi ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum kirkjunnar, þá sé sóknarnefndinni heimilt að jafna niður því sem á vantar á alla gjaldskylda safnaðarlimi, eftir efnum og ástæðum.

En í frumv. því, sem afgreitt hefir verið frá háttv. Ed. er svo ákveðið, að ávalt þegar kirkjugjald í sóknum, þar sem söfnuður hefir á hendi umsjón og fjárhald kirkju, er hækkað frá því sem lögákveðið er, skuli gjaldaukanum jafna niður að hálfu leyti eftir efnum og ástæðum. Með þeirri breytingu, sem nefndin hefir stungið upp á, vinst það, að langt um sjaldnar þarf að koma til aukaniðurjöfnunar, og ekki nema þegar persónugjaldið að öðrum kosti mundi verða hærra en góðu hófi gegnir. Hámark kirkjugjaldsins mætti að vísu til taka í lögunum og setja það t. d. 1 kr. eða jafnvel 1 kr. 50 a. ef það þætti hentugt, en ráðlegra þykir að leggja það á vald sóknarnefndar, að ákveða gjaldið eftir því, sem hæfa þykir, og setja henni í því efni engar skorður nema þær, sem felast í samþykki safnaðarfundar og héraðsfundar, enda virðist mega bera það traust til sóknarnefndanna, að þær gæti jafnan hófs í þessu efni.

4. breyt.till. fer fram á að fella burt orðið »minst« úr 8, gr., þar sem landsstjórninni er veitt heimild til að ákveða kirkjugjald í sóknum, þar sem söfnuður hefir ekki tekið að sér umsjón og fjárhald kirkju, þannig að það nemi jafnmikilli upphæð og allar sóknartekjur kirkjunnar eftir 10 ára meðaltali 1899—1909. Þessi breyting er alsendis nauðsynleg til að fyrirbyggja þann misskilning, að stjórninni sé í sjálfsvald sett að ráða hámarki gjaldsins. Þetta orð (»minst«) hefir ófyrirsynju komist inn í frumv. Í Ed., en stóð ekki í frumv. skattamálanefndarinnar.

1. og 5. breyt.till. nefndarinnar fer fram á, að gjalddaginn skuli vera 31. desember ár hvert, í staðinn fyrir 15. okt., ekki fyrir þá sök, að 15. okt sé ekki að mörgu leyti heppilegur, en með því að manntal fer ekki fram fyr en í desembermánuði eða í október, að því er snertir Reykjavíkurkaupstað og ekki er byggjandi á manntali frá fyrra ári, þá verður ekki komist hjá slíkri færslu á eindaga gjalddaganna.

6. breyt.till. er við 11. grein og er hún að eins gerð til þess að orðalagið verði nákvæmara en nú er.

Um þessar breytingartillögur hefir öll nefndin orðið sammála, en tveir af nefndarmönnunum hafa gert ágreiningsatkvæði, að því er snertir gjaldskyldu utanþjóðkirkjumanna og skal eg ekki fara frekar út í það, fyr en eg heyri ástæður þeirra.