20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

7. mál, háskóli

Ari Jónsson:

Eg skal geta þess, að eg er á sama máli og háttv. þm. V.-Ísf. um það, að eg æski þess, að tungan geti alt af verið sem hreinust, að útlend orð séu ekki notuð og að íslenzkt mál verði auðgað að innlendum orðum. En eg vil gera þetta svo, að það sé til verulegra bóta og gert í samræmi hvað við annað. Þessi orð, sem hér er verið að amast við: kandidat, prófessor o. s. frv., eru notuð alstaðar. Stofninn í þeim er latneskur, en orðin sjálf eru orðin evrópsk. Ef við förum að íslenzka þessi nöfn, þá skal eg taka það fram, að mér þykir ekki frekar ástæða til þess að íslenzka nöfn kennaranna heldur en nemendanna (stúdentsnafnið). En mér finst vér ekki færir um að skifta um til bóta. Það er farið fram á það í frv., að gera greinarmun á þremur tegundum kennara, og gert ráð fyrir nafninu aðstoðarkennari um dósenta. Eg veit ekki betur, en að dósentar séu fullkomlega eins sjálfstæðir kennarar eins og prófessorar; þess vegna er rangt að kalla þá aðstoðarkennara, þó þær námsgreinar, sem þeir kenna, séu ef til vill að ýmsu leyti minni, þá eru þær samt jafn þýðingarmiklar. Ef á að gera mun á þessum mönnum á annað borð, þá eru nöfnin, sem valin hafa verið, að minsta kosti óheppileg.

Það var ekki fleira, sem mér þótti sérstaklega þurfa að athuga. Eg fyrir mitt leyti er líka á sömu skoðun og háttv. þm. V.-Ísf. um að br.till. á 22. gr. sé óhyggileg. Eftir því, sem góður íslenzkumálfræðingur hefir sagt mér, þá er eins mikil ástæða til að segja »endurtaka prófið« eins og »taka prófið«.

Eg skal svo að eins drepa lítið eitt á það atriði, að þýða nöfn eins og »stúdent«. Það var minst á það áðan, hve afleitt það væri, ef það yrði þýtt með orðinu »nemandi«. Eg skal benda á, að ef orðið væri t. d. þýtt á dönsku, þá yrði úr því »Højskolelærer«. Eins og menn vita, þýðir þetta orð alt annað, sem sé lærlingur á lýðháskóla, en ekki nemandi við háskóla (Universitet). Eg verð þess vegna að vera með því að halda þeim nöfnum, sem nú tíðkast, þó þau séu í raun og veru útlend, þangað til nýjar þýðingar fást á þeim, sem eru betri en þau orð, sem nú er völ á.