30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

53. mál, sóknargjöld

Jón Sigurðsson:

Eg er ásamt öðrum riðinn við breyt.till. á þskj. 622. Hún fer fram á breytingu á frumv. þannig, að þeir einir eru gjaldskyldir til þjóðkirkjunnar, sem teljast til hennar, en þeir séu lausir við að greiða gjöld til þjóðkirkjunnar, sem ekki teljast til hennar.

Frumv. þetta fer áreiðanlega í rétta átt, að því leyti að breyta sóknargjöldunum í persónugjöld, en um leið og það er gert, þá finst mér sjálfsagt, að stíga sporið nokkuð lengra, þannig að einungis þeir, sem teljast í þjóðkirkjufélaginu séu gjaldskyldir til hennar. Þeir sem aftur á móti ekki tilheyra neinu kirkjufélagi og hafa jafnvel þá skoðun, að öll kirkjufélög og trúarbrögð séu óþörf, þá er ranglátt að þvinga þá til þess að greiða þessi gjöld. Ef þetta ákvæði er sett inn í frumv., þá nálgast það mun meira fríkirkjuhugmyndina.

Það sem sérstaklega er haft á móti þessu ákvæði, er einkum það, að þjóðkirkjan missi tekjur. Getur verið að það sé rétt, en enginn getur sagt um það, hvað mikið, eða hvort það væri til tjóns fyrir hana, og þótt svo væri að fleiri eða færri segðu sig úr henni fyrir þessa sök, þá get eg ekki séð, að það sé hinn minsti skaði fyrir kirkjuna að missa þá menn. Það bætir ekki hugsunarhátt þeirra manna, þótt þingið með lagaákvæðum gerði þá gjaldskylda. Eg álít hið gildandi fyrirkomulag óhafandi, að allir séu jafngjaldskyldir, og það er mín skoðun, að kirkjulegur áhugi vaxi ekki við það. því meira frelsi í þeim sökum, þess meiri áhugi — nægir að benda á Vesturheim í þessu efni. — Það bætir ekki kirkjulífið eða trúaráhugann, þótt menn séu tjóðraðir með lagaböndum, hvort sem þeim er það ljúft eða ekki.

Ef þessi persónugjöld eru samþykt, sem eg álít alveg rétt, þá finst mér það réttast, að jafnframt séu þeir menn ekki gjaldskyldir til þjóðkirkjunnar, sem ekki telja sig til hennar. Þetta fyrirkomulag hygg eg mundi verða til þess að vekja áhuga á kirkjumálum, en ekki verða til skaða. Þeir menn, sem þannig eru skapi farnir, að þeir vilja ekki vera í þjóðkirkjunni, geta aldrei orðið nýtir menn fyrir hana, þótt þeir séu bundnir við hana með lögum.

Eg fer ei fleiri orðum um tillöguna. Vona, að nokkurir menn verði mér samdóma um það, að þetta sé heppilegt spor.