30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

53. mál, sóknargjöld

Framsögumaður (Ólafur Briem):

Br.till. á þingskj. 622, fer fram á að í stað þess að í frumv. er sett það skilyrði fyrir gjaldfrelsi utanþjóðkirkjumanna, að þeir séu í einhverju kirkjufélagi, því er prest hefir eða forstöðumann, er fengið hefir konunglega staðfestingu, þá séu undanþegnir sóknargjöldum allir þeir, sem ekki eru í þjóðkirkjunni. Formælendur þessarar br.till. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) og þm. Mýr. (J. S.), hafa tekið það fram, að nú væri einmitt hentugur tími til þess að bera hana fram. Þótt eg að mörgu leyti geti fallist á réttmæti hennar í eðli sínu, og þau rök, er þeir hafa flutt, þá get eg ekki orðið þeim sammála um það, að breyt.till ætti nú að verða samþykt.

Eg held að ekki sé hægt að losa alla þá við gjöld til þjóðkirkjunnar, sem ekki teljast til hennar, fyr en ríki og kirkja eru aðskilin. Það mál er nú einmitt á dagskrá, og verður líklega hreyft við því alvarlega, áður en langt um líður. Að ekki sé hægt að samþ. líkt ákvæði og það sem felst í breyt.till., fyr en ríki og kirkja eru aðskilin byggist á því, að samkvæmt í prestalaunalögunum, sem samþ. voru á þinginu 1907, verður landssjóður að ábyrgjast prestum lögákveðin laun, og að svo miklu leyti sem tekjur prestasjóðs nægja ekki til að borga þau, verður landssjóður að greiða mismuninn. Ef margir menn losnuðu við að greiða sóknargjöld til prests, mundi prestlaunasjóður rýrna að sama skapi og afleiðingin verða sú, að landssjóður þyrfti að borga þeim mun meira til launa handa prestum.

Því takmarki verður því ekki náð, sem ætlast er til með breyt.till., að þeir sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni borgi ekkert til hennar. Þeir verða eftir sem áður að borga í landssjóðinn og þeim mun meira, sem hann hefir meiri útgjöld og þarf í fleiri horn að líta. Hér er því einungis hálft spor stigið, og samsvarar ekki tilganginum nema að nokkru leyti.

Sú skoðun er einnig ríkjandi, að löggjafarvaldið megi ekki rýra tekjur bændakirkna. Ef breyt.till. gengur fram, þá sviftir hún þær tekjum, og þá gæti verið að tala um, að þær ættu skaðabótakröfu á hendur landssjóði.

Eg verð því að halda fast við skoðun meiri hluta nefndarinnar í þessu efni, þrátt fyrir röksemdir þær, sem í fram hafa verið fluttar. Og það hygg eg, að allir verði að viðurkenna, að frumv. gerir miklar bætur á núverandi ástandi einnig í tilliti til utanþjóðkirkjumanna, að því leyti, sem þeir eru alveg losaðir við öll gjöld til þjóðkirkjunnar, ef þeir fullnægja lögákveðnum skilyrðum, í stað þess, að hingað til hafa þeir þó ekki með lögum verið leystir undan þeirri skyldu aðgreiða fasteignartíund og kirkjugjald af húsum til annara kirkna en þeirra, sem eru landssjóðseign, né heldur eru þeir að lögum lausir við lausamannsgjald til prests og kirkju. Og í annan stað er í þessu frumv. slept því skilyrði fyrir gjaldfrelsi utanþjóðkirkjumanna, sem sett eru í lögum 4. marz 1904, að söfnuðurinn hafi komið sér upp kirkju, sem að áliti kirkjustjórnarinnar teljist sómasamlegt guðshús.