08.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

53. mál, sóknargjöld

Framsögumaður (Ólafur Briem):

Eg ætla ekki að deila um það við háttv. 2. þingm. S.-Múl. (J. Ól.), hvort þetta frumv. er réttarbót eða ekki, jafnvel þótt eg fyrir mitt leyti sé ekki í neinum vafa um það, að það sé talsverð réttarbót. Eins og kirkjugjöldum er nú háttað, er mjög erfitt fyrir sýslunefndir að innheimta þau. Má t. d. nefna lambsfóður, sem gjaldendur eru ekki skyldir að borga öðru vísi en í fóðrum, sem getur verið mörgum annmörkum bundið og óþægilegt að koma í peninga.

Viðvíkjandi því er háttv. 2. þingm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði í ræðu sinni, að þjóðkirkjumenn væru ver settir eftir þessu frumvarpi, en samkvæmt núgildandi lögum, þá er þar ekki nema hálfsögð sagan. Eftir núgildandi lögum um utanþjóðkirkjumenn frá 19. febr. 1886 og 4. marz 1904 eru slíkir menn skyldir að greiða fasteignartíund og kirkjugjald af húsum til annara kirkna en þeirra, sem eru landssjóðseign, og sömuleiðis lausamannsgjald til prests og kirkju. En eftir frumv. eru þeir lausir við öll þessi gjöld, ef þeir fullnægja öllum þeim skilyrðum, er lögin setja, og þurfa þá ekki að greiða gjöld nema til sinnar eigin kirkju, og er ekki hægt að neita því, að þetta er sannarleg réttarbót fyrir þá.

Jafnvel þótt nefndinni sé það ekkert kappsmál, að koma frumvarpinu fram á þessu þingi, hefir hún fundið sér skylt, að styðja framgang þess og álítur, að það sé enginn ávinningur, að geyma það til næsta þings, heldur sé réttast, að afgreiða það nú sem lög frá þinginu.