20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

7. mál, háskóli

Sigurður Stefánsson:

Eg vissi vel alt það, sem sagt hefir verið háskólanum til gildis. Eg hefi ekkert fræðst af umræðunum og breyti ekki mínu atkv. fyrir þær. Ef við á annað borð stofnum háskóla, þá ættum við að gjöra hann myndarlegan, til þess hann yrði okkur ekki til minkunar. Það kostar mikið fé. Og eins og eg sagði áðan, er fjárhagur landsins ekki svo góður nú, né heldur horfurnar, að við megum leggja neinar fjárveitingaskyldur á herðar næsta þingi.

Eg játa að það er mikilsvert atriði, að stöðva straum mentamanna vorra til útlanda. En það mundi líka kosta okkur 40—60 þús. kr. á ári, því að við getum ekki sagt við þá, að þeir skuli nema hér, nema við getum um leið sagt þeim, að þeir hafi engan fjárhagslegan skaða af því. En til þess er ekki fé til að sinni.

Háttv. þm. G.-K. sagði, að við mættum ekki láta þetta mál sitja á hakanum. En það er einmitt það, sem nefndin vill gera. Hún viðurkennir að ekki sé fé til að sinni, og sýnir það, að það er á fullum rökum bygt, sem eg hefi sagt.

Eg veit svo vel um hug manna í þessu máli, að mér kemur ekki til hugar, að mitt atkvæði geti haft nokkur áhrif á úrslit þess. En mín skoðun er að réttast sé að fresta því að samþykkja þetta frv. til næsta þings. Það er nógur tími að gera það þá, ef ástæður leyfa, og menn sjá sér það fært fjárhagsins vegna.