18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

93. mál, löggilding Viðey

Ráðherrann (H. H.):

Eins og kunnugt er var samskonar frumv. lagt fyrir síðasta alþingi, og var það samþ. Í Ed en felt í Nd.

P. J. Thorsteinsson & Co. hefir nú á ný farið fram á að fá þennan stað löggiltan. Síðan á síðasta þingi hafa komið fram nýjar ástæður og atriði, sem mæla með slíkri beiðni. Félagið hefir t. d. látið gera mannvirki mikil í eynni. Auk húsa hefir það látið byggja stóra hafskipabryggju, þar sem gufuskip, bæði fiskiskip og flutningaskip geta legið við og fermt og affermt eftir þörfum. Öll þessi mannvirki hefir félagið látið gera í því trausti, að alþingi synji ekki löggildingarinnar, og það því fremur hefir það ástæðu til þess, sem alþingi að undanförnu hefir fylgt þeirri reglu, að synja ekki um löggilding verzlunarstaða, og það jafnvel þótt ástæðurnar hafi ekki alt af verið sem veigamestar.

Um þessa höfn má með sanni segja, að hún er fyrirtaks höfn, og það er meira en sagt verður um marga staði, sem löggiltir hafa verið og löggiltir munu verða, væntanlega einnig á þessu þingi.

Eg get reyndar búast við, að sumir finni máli þessu til foráttu, að það sé Reykjavíkurbæ til baga, en slíkt mun þó naumast vera rétt, ef vel er athugað, og ef þetta frumv. nær ekki samþykki þingsins, virðist félag það, sem komið hefir upp hafnarmannvirkjunum í Viðey, beitt misrétti, sem ekkert tillit til hafnarsjóðs Reykjavíkur getur réttlætt.

Eg vonast því til, að hin háttv. deild sýni þá samkvæmni, að samþ. þetta frumvarp.