17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

93. mál, löggilding Viðey

Hannes Hafstein:

Eg er á alt öðru máli en háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og háttv. forseti deildarinnar (H. Þ.). Hér er eftir mínum skilningi als ekki að ræða um brot á þingsköpunum.

Í 27. gr. þeirra er bannað að bera upp aftur á sama þingi lagafrumvörp, sem önnur hvor þingdeildin hefir felt. Efri deild gat því ekki tekið upp aftur lagafrumv. um löggilding Viðeyjar út af fyrir sig. Hins vegar er í 30. gr. þingskapanna leyft með berum og skýlausum orðum, að breytingartillögur megi bera upp í hinni deildinni og í sameinuðu þingi um atriði, sem búið er að fella í deild. Þessi viðauki við löggildingarfrumv., sem háttv. Ed. hefir samþ., er bæði að formi og efni að eins atriði úr því stjórnarfrumvarpi um löggilding Viðeyjar, sem felt var hér í deildinni, og því virðist mér einsætt, að þingsköpin eru því ekki til fyrirstöðu, að þetta atriði komist inn í lögin, enda er því slegið föstu með úrskurði háttv. forseta Ed. Að því er snertir aðferð þessa að öðru leyti, skal eg að eins benda á það, að full ástæða getur verið fyrir þessa háttv. deild að samþykkja nú löggilding Viðeyjar í sambandi við fjölda margar aðrar löggildingar, sem miklu minni ástæða er til að öllu leyti, þó að deildin í þingbyrjun, meðan engin önnur löggildinga-frumv. voru samþ. né framkomin, vildi ekki samþ. löggilding Viðeyjar einnar út af fyrir sig. En þegar þetta þing þar á eftir kemst inn á þá braut, að samþykkja ástæðulitlar löggildingar fyrir hvern meiri hluta þingmann á fætur öðrum, þá gæti vel verið ástæða fyrir deildina til þess, að breyta atkvæði sínu um beztu höfnina, sem löggildingar er beiðst á.