17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

93. mál, löggilding Viðey

Forseti (H. Þ.):

Alt aðalefni hins felda frumv. er komið inn í þetta frv., það er löggildingin sjálf, sem er aðalatriðið. Hér er því um meira en eitt einstakt, lítilfjörlegt atriði úr feldu frv. að ræða, eins og h. 1. þm. Eyf. (H. H.) var að reyna að verja, en tókst vitanlega ekki, því að það er óverjandi. Það má taka dæmi til skýringar. Hyggur h. 1. þm. Eyf. (H. H.) að það væri réttmætt, eftir að eitthvert frumv. er felt í annari deildinni, að þá sé öllu aðalefni þess frumv., ofurlítið öðruvísi orðað hnýtt t. d. sem sérstakri grein við annað frumv., og það látið ganga í þessari mynd aftur til þeirrar deildarinnar, sem hafði áður felt málið. Nei, slíkt væru ósæmilegir lögkrókar, og þvert ofan í þingsköpin. En einmitt svona er þessu máli nú háttað, eins og það liggur hér fyrir, og h. 1. þm. Eyf. (H. H.) er öldungis þýðingarlaust að beita mælsku sinni og rökfimi til að réttlæta þetta. Hann hlýtur að gera það að gamni sínu, án þess nokkur hugur fylgi máli, svo að eg ekki taki frekar til orða. En þótt þessi stórgalli sé á frv., þá hefi eg úrskurðað að taka mætti það til umræðu, þangað til búið er að laga það og koma því í rétt horf. Það verður og að skoða þetta sem nýtt frumv., vegna þess að þar eru löggildingar tveggja staða (Kúðaóss og Skaptáróss), sem ekki hafa áður legið hér fyrir deildinni.